Olíufulltrúar báru af sér sakir

Edith. Stærsti olíuborpallur Chevron undan strönd Suður-Kaliforníu.
Edith. Stærsti olíuborpallur Chevron undan strönd Suður-Kaliforníu. AFP

Fulltrúar nokkurra af stærstu olíuframleiðendum Bandaríkjanna, þar á meðal Exxon Mobil, Chevron, BP og Shell, komu fyrir þingnefnd í Washington á fimmtudaginn og sátu þar fyrir svörum í sex klukkustundir um raunveruleg umhverfisáhrif vinnslu jarðefnaeldsneytis auk þess sem bornar voru undir fulltrúana grunsemdir um að fyrirtækin hefðu með vitund og vilja veitt almenningi villandi upplýsingar um áhrif starfseminnar á umhverfið.

Það var eftirlits- og umbótanefnd fulltrúadeildar þingsins, sem yfirheyrði fulltrúa orkuframleiðendanna, en fundurinn á fimmtudaginn var hluti umfangsmikillar rannsóknar á starfsháttum fyrirtækjanna, sem fulltrúar demókrata á bandaríska þinginu hafa látið í veðri vaka að muni standa yfir að minnsta kosti næsta árið.

Færi sig nær hreinni orku

„[Orkuframleiðendurnir] hafa um of langt skeið komist undan ábyrgð sinni á sínum þætti í því að færa plánetuna nær stórslysi í loftslagsmálum,“ sagði Carolyn B. Maloney nefndarformaður í inngangsorðum sínum áður en fulltrúar fyrirtækjanna tóku að svara spurningum nefndarinnar og sóru þar af sér allan áburð um ranga upplýsingagjöf og umhverfisspjöll. Þvert á móti kváðu þeir það einmitt stefnu fyrirtækjanna, að færast nær framleiðslu hreinnar orku og leggja þannig sitt lóð á vogarskál hreinna umhverfis framtíðarinnar.

Darren Woods, stjórnarformaður Exxon Mobil, kvað stjórnendur fyrirtækisins hafa gert sér það ljóst fyrir margt löngu, að loftslagsbreytingar væru raunverulegar og benti um leið á að ekki væru nein „auðveld svör“ á boðstólum. „Olía og gas munu áfram verða þarfaþing um ókomna framtíð,“ sagði Woods fyrir nefndinni.

Greiðslur til „skuggahópa“

Maloney nefndarformaður lá fulltrúum orkufyrirtækjanna á hálsi fyrir að hafa ekki staðið skil á innanhússgögnum, sem nefndin hefði þó farið fram á að fá afhent fyrir fundinn á fimmtudag og átti þar við gögn sem tengdust „greiðslum til skuggahópa“, almannatengslafyrirtækja og fleiri fyrirtækja auk samskipta milli æðstu stjórnenda fyrirtækjanna þar sem hlutur starfseminnar í loftslagsbreytingum var til umræðu.

„Ég hef gengið mjög hart eftir því að fá þessi gögn afhent, en olíufyrirtækin leika þar sama leikinn og þau hafa gert um áratuga skeið þegar loftslagsmál hafa verið til umræðu – beita töfum og hindrunum,“ sagði Maloney, en talsmenn demókrata hafa borið loftslagsrekistefnuna gagnvart olíufyrirtækjunum saman við rannsókn neðri deildar þingsins á tóbaksframleiðendum á tíunda áratugnum, sem að lokum skilaði þeirri niðurstöðu, að framleiðendurnir hefðu gert sitt til að dylja hættu- og ávanaeiginleika sígarettunnar.

Michael Wirth fulltrúi Chevron kvað það af og frá að fyrirtæki hans hefði vísvitandi slegið ryki í augu almennings til að fegra umhverfisímynd sína. „Þrátt fyrir að viðhorf okkar gagnvart loftslagsbreytingum hafi tekið stakkaskiptum á löngum tíma, eru allar ásakanir um að Chevron hafi viljandi dreift röngum upplýsingum og blekkt almenning í þessum efnum algjörlega úr lausu lofti gripnar,“ sagði Wirth.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert