Leiðangur frá Harvard leitar grips frá geimverum

Kóralrif í í Kyrrahafi. Leitin að loftsteininum hefst í sumar.
Kóralrif í í Kyrrahafi. Leitin að loftsteininum hefst í sumar. AFP

Eðlisfræðingur við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum skipuleggur nú leiðangur í Kyrrahaf. Viðfangsefnið: Loftsteinn sem hann telur að vitsmunaverur í fjarlægu sólkerfi gætu hafa skapað.

Í leiðangrinum mun eðlisfræðingurinn Avi Loeb leita að brotum loftsteins sem lenti í sjónum nálægt ströndu Manus-eyju í Papúa Nýju-Gíneu árið 2014. 

Loeb telur lofsteininn vera þann fyrsta sem vitað er til að eigi uppruna sinn utan sólkerfis okkar.

Hópur á hans vegum hefur sömuleiðis komist að þeirri niðurstöðu að loftsteinninn sé mun harðgerðari en þeir sem fundist hafa á jörðinni hingað til. Guardian segir frá.

Loeb segir það mögulegt að loftsteinninn sé svona harðgerður vegna þess að hann hafi verið búinn til af vitsmunaverum, sem hafi sent hann frá fjarlægri siðmenningu fyrir milljörðum ára.

Leitað á 1,7 kílómetra dýpi

Leiðangurinn, sem farinn verður í sumar, mun kosta 1,5 milljónir bandaríkjadala, eða 210 milljónir króna.

Leitað verður að loftsteinabrotum á sjávarbotninum á um 1,7 kílómetra dýpi. 

Í leitinni verður notast við sleða með seglum, myndavélum og ljósum, en sleðarnir verða eftir sjávarbotninum í von um að finna brotin af lofsteininum.

mbl.is