Apple lætur undan þrýstingi

Gert er ráð fyrir að Apple muni kynna nýjasta iPhone-símann …
Gert er ráð fyrir að Apple muni kynna nýjasta iPhone-símann í næstu viku á árlegum haustviðburði fyrirtækisins. AFP/Nicholas Kamm

Allt bendir til þess að nýjasta iPhone-síma Apple muni fylgja USB-C tengikapall, en síminn verður kynntur til sögunnar þann 12. september. 

Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá

Ólíkt keppinautum Apple hefur fyrirtækið undanfarin ár framleitt síma með tengi fyrir lightning-kapla. Með tenginu geta notendur hlaðið símann, tengt heyrnatól eða aðra aukahluti við hann.

Í lögum Evrópusambandsins (ESB) er kveðið á um að símaframleiðendur skuli koma sér saman um sameiginlega hleðslutengingu fyrir desember á næsta ári, til þess að spara neytendum peninga og draga úr sóun. 

Kæfa neytendur 

Apple mótmælti á sínum tíma reglum ESB, en þrátt fyrir það eru flestar nýjustu vöruru fyrirtækisins framleiddar fyrir USB-C tengikapla. 

Í september árið 2021 sagði fulltrúi Apple í samtali við BBC að strangar reglur sem kveða á um eina tegund af tengjum myndu skaða neytendur.

Minnkar úrgang um 11.000 tonn

Það lítur því út fyrir að iPhone 14-síminn verði síðasta Apple-tækið sem framleitt er með lightning-tengikapli og gæti þetta því markað upphafið á enda lightning-tengisins. 

Enn er þó óljóst hvort gerð verði alþjóðleg breyting á vörunni, þó tæknirisinn sé ólíklegur til þess að útbúa aðra útgáfu af símtólunum einungis fyrir Evrópumarkað.

Samkvæmt ESB mun breytingin spara neytendum allt að 250 evrur á ári í óþarfa innkaup á hleðslusnúrum og minnka úrgang um 11.000 tonn á ári. 

Gert er ráð fyrir að Apple muni kynna nýjasta iPhone-símann, iPhone 15 og iPhone 15 pro, í næstu viku á árlegum haustviðburði fyrirtækisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka