Forviða yfir kínverskum snjallsíma

Mörg ríki hafa beitt refsiaðgerðum gegn Kína sem áttu að …
Mörg ríki hafa beitt refsiaðgerðum gegn Kína sem áttu að gera þeim erfiðara fyrir að framleiða háþróaða tækni. AFP

Bandarísk stjórnvöld leitast eftir frekari upplýsingum um nýjan síma frá kínverska tæknirisanum Huawei. Síminn nefnist Huawei Mate 60 Pro og notast við nýjan háþróaðan örgjörva.

Örgjörvinn er ný kynslóð af útgáfunni Kirin 9000s og er sérstaklega hannaður fyrir Huawei. Bandarískum stjórnvöldum þykir tæknin skjóta skökku við þar sem fyrirtækið sagðist hafa hætt framleiðslu á örgjörvanum árið 2020, vegna viðskiptaþving­ana banda­rískra stjórn­valda. 

Bandaríski fjölmiðillinn CNN segir frá því að margir sérfræðingar úr tæknigeiranum átti sig ekki á því hvernig fyrirtækið hefur þá nauðsynlegu tækni sem þarf til að framleiða örgjörvan.

Sérfærðingar furðu lostnir

Jake Sulli­v­an, þjóðarör­ygg­is­ráðgjafi Banda­ríkja­for­seta, sagði á blaðamannafundi Hvíta hússins í dag að Bandaríkin þyrftu nákvæmari upplýsingar um einkenni og innihald örgjörvans til þess að sjá hvort Huawei hafi á einhvern hátt komist undan refsiaðgerðum gegn Kína er varða útflutning á svokölluðum hálfleiðurum sem þarf til framleiðslu á þeim.

CNN hafði samband við Huawei en fyrirtækið vildi ekki tjá sig um málið.

mbl.is