Hætta með háþróaðan örgjörva vegna þvingana

Ástralía, Japan og Bretland hafa ákveðið að takmarka aðkomu Huawei …
Ástralía, Japan og Bretland hafa ákveðið að takmarka aðkomu Huawei að uppbyggingu 5G. AFP

Kínverski fjarskiptarisinn Huawei ætlar að hætta að framleiða háþróaðasta farsímaörgjörvann sinn vegna viðskiptaþvingana bandarískra stjórnvalda. Veldur þetta fyrirtækinu „gífurlegu tapi“, að sögn forstjóra fyrirtækisins. 

Huawei, stærsti framleiðandi fjarskiptabúnaðar á heimsvísu, hefur orðið að þrætuepli í deilum Bandaríkjanna og Kína um lýðræði en bandarísk stjórnvöld telja að Huawei sé veruleg ógn við netöryggi.

Yu Chengdong, forstjóri Huawei, sagði á föstudag að framleiðslu á örgjörvanum, Kirin 9000, yrði hætt frá og með 15. september næstkomandi vegna viðskiptaþvingana sem Bandaríkin hafa beitt fyrirtækið. 

Notaðir í fullkomnustu síma Huawei

Stjórnvöld í Washington slitu á aðgengi Huawei að bandarískum íhlutum og tækni á síðasta ári, þar á meðal aðgengi fyrirtækisins að tónlist Google og annarri snjallsímaþjónustu. Þessar takmarkanir voru hertar í maí þegar bandarísk stjórnvöld bönnuðu seljendum um allan heim að nota bandaríska tækni til að framleiða íhluti fyrir Huawei.

Taívanska fyrirtækið TSMC, sem hefur til þessa búið Kirin 9000-örgjörvann til með bandarískum búnaði, er hætt að taka við pöntunum frá Huawei af ótta við mögulegar afleiðingar þess. Huawei hefur ekki bolmagn til að búa örgjörvana til á eigin spýtur en þeir eru notaðir í fullkomnustu síma fyrirtækisins. 

Ástralía, Japan og Bretland takmarka aðkomu Huawei

Bandarísk stjórnvöld hafa einnig farið í diplómatíska herferð til að einangra Huawei sem hefur til þessa staðið verulega framarlega í alþjóðlegu kapphlaupi um uppbyggingu 5G-fjarskiptainnviða. 

Breska ríkisstjórnin brást við vaxandi þrýstingi frá bandarískum stjórnvöldum og hefur heitið því að fjarlægja Huawei frá 5G-neti sínu fyrir árið 2027, þrátt fyrir viðvaranir um refsiaðgerðir frá Peking. 

Ástralía og Japan hafa einnig gripið til ráðstafana til að takmarka þátttöku kínverska fyrirtækisins í uppbyggingu 5G-innviða sinna. Evrópsk fjarskiptafyrirtæki, til dæmis hið sænska Telia og norska Telenor, hafa einnig ákveðið að fela öðrum en Huawei uppbyggingu 5G-kerfisins. 

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is