Eins grískt og það getur orðið

„Fáir gera lambalæri jafn-vel og Grikkir og ég ætla að sýna ykkur eina ótrúlega einfalda uppskrift. Þetta verður eins grískt og það getur orðið,“ segir Óskar Finnsson kokkur. Með lærinu ber Óskar fram stökka kartöflubáta, sumarlega sósu og að sjálfsögðu grískt salat.

Uppskriftin nýtir ekki bara fetaost, sem á rætur sínar að rekja til Grikklands, heldur olíuna af honum líka. Þrjár msk. af olíunni eru settar í ofnfast mót ásamt 2 msk. af safa úr ólífukrukku. Lærið er sett í fatið, velt upp úr vökvanum og þvínæst kryddað með salti og pipar. Örlitlu hunangi er stráð yfir og lærið er sett inn í ofn við 180° í 1 klst. og 20 mínútur.

  • Lærið ætti að vera bleikt við beinið að eldunartíma loknum, en það er lítið mál að lengja eldunartímann ef þið kjósið að hafa það eldað í gegn.

Stökkir kartöflubátar

Kartöflurnar eru skornar í báta og settar í vatn. „Við þurfum að ná sterkjunni úr kartöflunum. Eftir 2–3 mínútur sjái þið að vatnið er orðið svolítið gruggugt, þá hleypum við vatninu af þeim og fyllum aftur upp með köldu vatni. Svo tökum við þær upp úr og þerrum þær. Svona verða þær krispí og góðar, þetta er algjört lykilatriði.“

Kartöflunum er velt upp úr olíu, þær settar í ofnfast mót og inn í ofn með lærinu þar sem þær bakast næstu 45 mínúturnar.

Sósa og salat

Dressingin er afar einföld. Einni dós af sýrðum rjóma, 2–3 msk. olíu af fetaosti, 1 tsk. dijon sinnepi, pipar og smá hunangi er öllu blandað vel saman í skál.

Lærinu fylgir að sjálfsögðu grískt salat. „Dásamlega einfalt, þetta er ein paprika, einn laukur, nokkrir kirsuberjatómatar og hálf flysjuð gúrka.“ Grænmetið er allt saxað gróft og blandað saman með fetaosti, smá olíu af ostinum og 1 tsk. af ediki.

Þetta er ekkert annað en veislumatur sem er hér borinn á borð. Eitt af því besta við hann eru afgangarnir sem er frábært að njóta daginn eftir og jafnvel endurnýta í aðra rétti.

mbl.is