Svo miklu meira en jólamatur

Hamborgarhryggur getur verið svo miklu meira en bara jólamatur, hann er ódýrt hráefni sem auðvelt er að nota til að útbúa frábæra rétti. Í þætti dagsins af Korter í kvöldmat töfrar Óskar fram ekki eina heldur tvær uppskriftir sem notast við þennan uppáhaldsmat margra landsmanna. Annars vegar opna samloku fyrir fullorðna, með hleyptum eggjum og hamborgarhrygg, og hins vegar tartalettur fylltar með hamborgarhrygg, sveppum og sætum kartöflum.

Hamborgarhrygginn er bæði hægt að kaupa í þykkum og góðum sneiðum og heilt stykki sem má sneiða niður heima. Hvort tveggja virkar ljómandi vel í þessum uppskriftum.

Samlokur fyrir fullorðna

Tvær ristaðar brauðsneiðar eru lagðar á disk og penslaðar með smá ólífuolíu. Á brauðsneiðarnar fara salatblöð, heill tómatur, vel af gúrku, piparrótarsósa og loks fjórar þykkar og góðar sneiðar af hamborgarhryggnum.

Það sem toppar samlokuna eru tvö hleypt egg, auðveld og fljótleg í framkvæmd. Vatn er soðið í potti með 1 msk. af ediki og smá salti. Þegar vatnið er byrjað að sjóða er hrært í því með skeið til að fá snúning á vatnið og tvö egg brotin út í. Eggin þurfa ekki nema um 3 mínútur í vatninu, þau eru best ef rauðan er enn fljótandi.

Eggin fara efst á samlokuna og þegar skorið er í rauðuna flæðir hún niður og gerir samlokuna svo „djúsí“ að maður fær vatn í munninn, algjört sælgæti!

Tartaletturnar eru fljótlegar og ótrúlega bragðgóðar.
Tartaletturnar eru fljótlegar og ótrúlega bragðgóðar.

Eins einfaldar tartalettur og það gerist!

Fyrsta skrefið er að skera sætar kartöflur í litla bita og steikja á pönnu með nóg af olíu. Á meðan þær malla er hvítlaukur saxaður gróft, sveppirnir skornir niður og öllu bætt á pönnuna, kryddað með salti og pipar og hrært vel saman.

Tartaletturnar eru settar inn í 180° heitan ofn og um leið og þær eru komnar inn er slökkt á ofninum, þetta er fyrst og fremst gert til að hita tartaletturnar.

Pela af rjóma er bætt á pönnuna með kartöflunum og það látið malla. Ef púrtvín eða sérrí finnst á heimilinu er ekki síðra að hella einum 10 dropum út í til að bragðbæta.

Kjötið er skorið í grófa bita og þegar rjóminn er farinn að þykkna talsvert er því bætt á pönnuna og öllu blandað vel saman. Tartaletturnar eru teknar úr ofninum og fylltar með góðgætinu af pönnunni. Hér er gott að hafa vel af vökvanum af pönnunni með til að þær verði eins „djúsí“ og þær geta mögulega orðið.

mbl.is