Frunsuna burt með einföldu húsráði

Frunsa er fremur andstyggilegt fyrirbæri.
Frunsa er fremur andstyggilegt fyrirbæri. mbl.is/skjáskot

Við á ritstjórn Matarvefjarins erum sérlegar áhugakonur um húsráð og þetta ráð hér sem við ætlum að deila með lesendum er í betra lagi.

Flest erum við sammála um það að frunsur eru eitt það andstyggilegasta sem hægt er að fá í andlitið og oftar en ekki lifa þær svo dögum skiptir með tilheyrandi vessa og veseni.

Það var því undirritaðri mikið áfall þegar hún fékk frunsu fyrir tveimur mánuðum eftir átta ára hlé. Eitthvað þóttu hefðbundin lyf úr apótekum dýr miðað við árangurinn sem lofað var og því var farið á stúfana og leitað að góðu húsráði. Nokkur voru í boði en oftast kom hvítlaukurinn fyrir. Var því skorinn góður fleygur og hann límdur á hökuna með plástri.

Ekki var útlitið upp á marga fiska en eitthvað var að gerast því það logsveið undan hvítlauknum og fyrr en varði fór frunsan að hjaðna. Tekið skal fram að fyrst var sett hefðbundið krem úr apóteki þannig að erfitt er að segja nákvæmlega til um gagnsemi hvítlauksins.

Fyrr en núna. Enn kom frunsa og má fastlega kenna veðrabreytingum um. Í þetta skiptið var hún á vörinni sem er sérdeilis leiðinlegur staður. Strax var náð í hvítlauk og viti menn. Tveimur sólarhringum síðar er hún að hverfa og aldrei náðu að myndast neinar vessablöðrur.

Ekkert annað lyf var notað heldur einungis tekinn hvítlaukssneið og henni nuddað á frunsuna á nokkurra tíma fresti. Passið ykkur að hvítlaukurinn sé safaríkur því það er safinn úr honum sem virðist gera mest gagn.

Við seljum þetta ekki dýrar en við keyptum það en þetta svínvirkaði í þetta skiptið. Eini gallinn er að lykta eins og hvítlaukur í tvo daga en það var þess virði.

Hvítlaukur.
Hvítlaukur.
mbl.is