Verður þetta jólasteikin í ár?

mbl.is/

Margir vita fátt betra en góða hreindýrasteik en hér erum við með enn dásamlegri útgáfu og það er hreindýrafillet „wellington“ en eins og allir sannir matgæðingar vita er það innbakað kjöt og ein frægasta eldunaraðferð heims á kjöti. 

Það er þó ekki allra og þarf viðkomandi að búa yfir lágmarksgetu í eldhúsinu til að geta afgreitt wellingtonið með sóma en sé sú geta fyrir hendi er þetta uppskriftin sem fær fullorðið fólk til að skæla. 

Það eru enginn annar en Viktor Örn Andrésson matreiðslusnillingur og Bocuse d'Or-akademía Íslands sem eru skrifuð fyrir þessari uppskrift en hún var unnin fyrir sérlegan villibráðaruppskriftabækling sem Sælkeradreifing fékk Bocuse d'Or-akademíu Íslands til að vinna fyrir sig. 

Afraksturinn er tímamótastöff - eins og einhver snillingurinn sagði. 

Njótið vel!

Hreindýrafillet „wellington“ með sykurbrúnuðum kartöflum, rauðrófueplasalati og einiberjasósu

 • 500 g hreindýrafillet
 • 2 öskjur sveppir
 • 1 hvítlauksgeiri
 • 1 skallottlaukur
 • 1 dl rjómi
 • 2 bréf serranoskinka
 • 2 msk dijonsinnep
 • smjördeig

Sykurbrúnaðar kartöflur

 • 3 bökunarkartöflur
 • 1 rauðrófa
 • 1 grænt epli
 • 1 skallottlaukur
 • 2 msk rúsínur
 • karamella

Einiberjasósa

 • 350 ml rauðvín
 • 500 ml nautasoð
 • 2 skallottlaukar
 • 5 einiber
 • 1 dl balsamedik
 • salt og pipar
 • 50 g ósaltað smjör (ef vill)

Aðferð:

 1. Brúnið hreindýrakjötið allan hringinn. Kryddið með salti og pipar.
 2. Skerið sveppina smátt ásamt skallottlauk og hvítlauk, léttsteikið á pönnu og hellið svo rjómanum yfir og sjóðið niður. Kælið.
 3. Leggið kjötið á serranoskinkuna, smyrjið með dijonsinnepi og dreifið svo sveppunum ofan á kjötið og rúllið upp.
 4. Leggið svo á smjördeigið og lokið því. Gott að pensla með eggi áður en það er bakað.
 5. Bakist við 200 gráður í 12 mínútur.

Meðlæti:

 1. Skerið kartöflurnar eftir smekk og sjóðið.
 2. Setjið svo í karamellu.
 3. Rífið niður eplið og rauðrófuna og blandið saman.
 4. Saxið rúsínur og hinn skallottlaukinn og setjið út í, kryddið með ediki, salti og pipar.
 5. Einnig má setja klementínuolíu saman við.

Einiberjasósa:

 1. Skerið niður skallottlaukinn og léttsteikið með einiberjunum.
 2. Hellið svo balsamedikinu yfir og sjóðið niður um 2/3. Bætið rauðvíninu saman við og sjóðið niður.
 3. Blandið svo nautasoðinu saman við og sjóðið hægt niður.
 4. Gott er að þeyta 50 g af ósöltu smjöri saman við í lokin og krydda með salti og pipar.
mbl.is