Einfaldur spari-þorskur

mbl.is/Kristinn Magnússon

Uppskriftaröðin Fimm eða færri hefur slegið í gegn á Matarvef mbl en þar keppast færustu kokkar landsins við að búa til ómótstæðilega rétti með fimm hráefnum eða færri. Markmiðið er að gera hversdagskokkunum lífið auðveldara en margur sýpur hveljur yfir flóknum uppskriftum sem innihalda jafnvel tugi innihaldsefna.

Hér er flækjustigið í lágmarki enda strangheiðarlegur þorskur á ferð. Það er Hrafnkell Sigríðarson, yfirmatreiðslumaður á Mat Bar, sem á heiðurinn að honum en samsetningin er sérlega snjöll enda vitum við vel að kokkar hafa flestir hverjir hærri eðlisgreind þegar kemur að mat.

Það er einmitt það sem við treystum á og ljóst er að bakaði þorskurinn hans Hrafnkels er sannkallað sælgæti. Hrafnkell skorar á Sigurð Kristin Laufdal Haraldsson, yfirkokk á Grillinu, og lesendur fylgjast væntanlega spenntir með hvað hann mun bjóða upp á í næstu viku.

Bakaður þorskur með tómat BBQ, sýrðum eplum, rauðkáli, eldpipar- og eplasmjöri

Uppskrift fyrir 2

 • 400 g þorskhnakki
 • Salt

Þorskurinn hreinsaður og saltaður vel í 20 mínútur. Síðan skolaður og þerraður.

Tómat BBQ

 • ½ eldpipar
 • 1 hvítlauksgeiri
 • 1 laukur
 • 1 dós niðursoðnir tómatar
 • 20 ml balsamik edik

Eldpipar, hvítlaukur og laukur skorið smátt. Svitað létt í potti og tómötunum og balsamicediki bætt við og soðið niður um helming. Allt sett í matvinnsluvél og unnið saman í mauk.

Sýrð epli

 • 1 grænt epli
 • 50 ml eplaedik
 • 75 ml vatn
 • 20 g sykur

Eplaedik, vatn og sykur hitað að suðu og síðan kælt. Eplið skrælt og helmingur tekinn frá, hinn helmingurinn kjarnhreinsaður og skorinn í munnbita. Bitarnir lagðir í edik lausnina og látið standa í alla vega klukkustund.

Rauðkál

 • 1/5 af rauðkálshaus
 • gott sjávarsalt

Rauðkálið skorið í þunnar ræmur og velt upp úr vel af salti. Látið standa í 15-20 mínútur og síðan skolað vel.

Eldpipar- og eplasmjör

 • Helmingurinn af eplinu sem var skilinn eftir
 • 100 g smjör
 • ½ eldpipar

Eplið skorið í smá bita og bakað við 160°C í 10-15 mín. eða þar til maukeldað, síðan unnið í matvinnsluvél í mauk. Smjörið brætt og unnið í matvinnsluvél ásamt eldpiparnum og sigtað vel. Síðan öllu blandað vel saman.

Rétturinn settur saman:

Þorsknum er velt upp úr tómat BBQ-sósunni og bakaður við 190°C í 4-6 mínútur (fer eftir þykkt stykkja). Rauðkáli og sýrðum eplum er blandað saman í skál og smakkað til með smá af edikinu frá eplunum og sett á disk. Þorsknum bætt ofan á rauðkálssalatið. Epla- og eldpiparsmjörið er hitað upp og hellt yfir.

Hrafnkell Sigríðarson, yfirmatreiðslumaður á Mat Bar.
Hrafnkell Sigríðarson, yfirmatreiðslumaður á Mat Bar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is