Einfaldasta súkkulaðikaka í heimi

Einstaklega ljúffeng og fljótleg kaka.
Einstaklega ljúffeng og fljótleg kaka. Kristinn Magnússon

Einfaldleikinn er oft erfiðastur eins og hefur margsannað sig í hinni frábæru kokkaáskorun Fimm eða færri sem lesendur Matarvefsins og Morgunblaðsins hafa skemmt sér yfir undanfarna mánuði. Áskorunin felst í því að fá meistarakokka landsins til að galdra fram uppskrift sem er svo einföld – en þó bragðgóð – að örgustu eldhússkussar ættu að ráða við hana. Nýjasti áskorandinn er enginn annar en Ylfa Helgadóttir, þjálfari íslenska kokkalandsliðsins, og hún galdrar hér fram rétt sem er svo einfaldur og yndislegur að það er ekki annað hægt en tárfella ögn af gleði.

Hér gefur að líta súkkulaðiköku sem er svo einföld að það tekur nákvæmlega 180 sekúndur að búa hana til. Það þýðir að hægt er að færa rök fyrir því að þetta sé í senn einfaldasta og fljótlegasta súkkulaðikaka í heimi. Súkkulaðið og frosin hindberin setja síðan punktinn yfir i-ið.

Ylfa er einn af þekktustu og færustu matreiðslumönnum landsins og hefur staðið í brúnni á veitingastaðnum Kopar frá upphafi – bæði sem yfirkokkur og eigandi.

Einfaldasta súkkulaðikaka í heimi

  • 1 dl súkkulaði
  • 1 egg
  • 1 skeið sykur
  • 1 kúfuð skeið smjör
  • 3 frosin hindber

Aðferð:

Setjið megnið af súkkulaðinu og smjör í bolla og inn í örbylgjuofn í 60 sekúndur. Hrærið þar til allt er bráðnað. Bætið eggi og sykri við og hrærið. Setjið aftur inn í örbylgjuofninn í 60 sekúndur.

Setjið afganginn af súkkulaðinu yfir og leyfið að bráðna á heitri kökunni og skreytið með frosnum hindberjum.

Ylfa Helgadóttir, þjálfari íslenska kokkalandsliðsins og eigandi og yfirkokkur á …
Ylfa Helgadóttir, þjálfari íslenska kokkalandsliðsins og eigandi og yfirkokkur á Kopar. Kristinn Magnússon
mbl.is