Heimabökuð einhyrningskaka sem sló í gegn

Kakan er æðisleg.
Kakan er æðisleg. mbl.is/Lilja Katrín Gunnarsdóttir - blaka.is

Það er fátt skemmtilegra (og meira taugatrekkjandi) en að undirbúa barnaafmæli. Dóttir Lilju Katrínar Gunnarsdóttur fagnaði átta ára afmæli sínu á dögunum og ákvað Lilja að vinna vel og vandlega með þemað sem var einhyrningar.

Nánar um undirbúninginn má lesa hér auk fleiri uppskrifta en hér er uppskriftin að sjálfri einhyrningskökunni sem er gullfalleg og afburðavel heppnuð.

Einhyrningar í aðalhlutverki í átta ára afmæli
 • 1 1/2 bolli sykur
 • 1 3/4 bollar hveiti
 • 6 egg (aðskilin)
 • börkur af 2 mandarínum (rifinn)
 • 2 msk mandarínusafi
 • 2 tsk vanilludropar
 • smá salt
Smjörkrem (fyrir bæði bollakökur og einhyrningsköku)
 • 500 g mjúkt smjör
 • 1 kg flórsykur
 • 200 g hvítt súkkulaði (brætt)
 • 2 tsk vanilludropar
 • 3-4 msk mjólk eða rjómi

Aðferð:

 1. Takið til tvö form sem eru sirka 18 sentímetrar að stærð, klæðið botnana með smjörpappír og smyrjið formin vel með olíu. Hitið síðan ofninn í 180°C.
 2. Byrjið á því að aðskilja eggin og stífþeyta eggjahvíturnar í tandurhreinni skál.
 3. Hrærið síðan eggjarauðum saman við sykur og vanilludropa þar til blandan er orðin þykk og rjómakennd.
 4. Blandið þá mandarínuberki og -safa saman við. Blandið síðan hveiti og salti varlega saman við með sleif eða sleikju.
 5. Þá blandið þið eggjahvítunum varlega saman við hveitiblönduna með sleif eða sleikju. Hér er einnig hægt að bæta við kökuskrauti, sirka einum bolla, til að gera kökuna enn litríkari.
 6. Deilið deiginu á milli formanna tveggja og bakið í um 40-45 mínútur. Kakan er síðan skreytt með smjörkreminu hér fyrir neðan. Einhyrningshornið bjó ég til úr sykurmassa. Það er gert með því að rúlla lengju sem er þykk á öðrum endanum en þynnist svo smátt og smátt. Lengjan er síðan vafin upp á prik, en ég vafði mína upp á ágætlega þykkt grillspjót. Ég málaði síðan hornið með gullglassúr sem ég keypti tilbúinn í Hagkaupum. Augun gerði ég með svörtum glassúr úr eggjahvítum og flórsykri.
Smjörkrem (fyrir bæði bollakökur og einhyrningsköku)
 1. Þeytið smjörið í 4-5 mínútur og bætið síðan flórsykrinum saman við.
 2. Bræðið súkkulaðið og blandið því saman við, sem og vanilludropunum. Mjólk eða rjóma er síðan bætt við ef kremið er of þykkt. Með þessu er síðan skreytt eins og vindurinn!
Litagleðin var í hávegum höfð.
Litagleðin var í hávegum höfð. mbl.is/Lilja Katrín Gunnarsdóttir - blaka.is
Gullfalleg regnbogakaka.
Gullfalleg regnbogakaka. mbl.is/Lilja Katrín Gunnarsdóttir - blaka.is
Sérlega krúttlegt.
Sérlega krúttlegt. mbl.is/Lilja Katrín Gunnarsdóttir - blaka.is
Einnig bakaði Lilja þessa girnilegu snúða.
Einnig bakaði Lilja þessa girnilegu snúða. mbl.is/Lilja Katrín Gunnarsdóttir - blaka.is
mbl.is