Quesadillas með pestó, fetaosti og parmaskinku

mbl.is/Svava Gunnarsdóttir

Sunnudagsmaturinn er mögulega mikilvægasta máltíð vikunnar en þá er helgin senn á enda og vonandi spennandi vika fram undan. Flest viljum við hafa eitthvað gómsætt í matinn sem krefst ekki of mikillar fyrirhafnar, allir elska og fer vel með mittismálið.

Svava Gunnarsdóttir á Ljúfmeti er flestum flinkari þegar kemur að gómsætum mat en þessi dásamlega uppskrift er einmitt úr hennar smiðju. Sjálf segir hún um réttinn:

„Sá réttur sem ég gríp hvað oftast til þegar ég er hugmyndasnauð varðandi kvöldmat eru quesadillas. Mér þykja þær alltaf slá í gegn. Þessar gerði ég um síðustu helgi og bar fram með buffalo-kjúklingi og gráðostasósu (ég veiiiit, furðuleg samsetning af kvöldverði) því ég var ekki viss um hvort quesadillurnar myndu falla í kramið hjá krökkunum, þar sem fyllingin var ólík því sem þau eru vön. Það voru óþarfa áhyggjur því þau mokuðu þeim í sig! Ég bar quesadillurnar fram með tacosósu en það er í raun algjör óþarfi því þær eru æðislegar einar og sér. Sjálfri þykja mér þær fara vel með vínglasi um helgar (og án tacosósu), bæði sem forréttur eða létt máltíð.“

Quesadillas með pestó, fetaosti og parmaskinku

  • tortillakökur
  • grænt pestó
  • fetaostur
  • parmesanostur
  • fersk basilika
  • ferskt chili
  • parmaskinka

Smyrjið tortillaköku með pestói. Setjið fetaost, parmesanost, ferska basiliku, hakkað chili (sleppið fræjunum ef þið viljið ekki hafa þetta sterkt) og parmaskinku yfir helminginn og brjótið svo tortillakökuna saman, þannig að hún myndi hálfmána. Steikið á pönnu á báðum hliðum og þrýstið aðeins á tortilluna svo osturinn bráðni.

Skerið í sneiðar og berið fram.

mbl.is/Svava Gunnarsdóttir
mbl.is