Lágkolvetnakjúklingur í rjómaostasósu

Lágkolvetnakjúklingaréttur með ítölsku ívafi og ostatoppi.
Lágkolvetnakjúklingaréttur með ítölsku ívafi og ostatoppi. mbl.is/

Gunnar Már Sigfússon, einkaþjálfari og talsmaður lágkolvetnalífstíls, er höfundurinn að þessari uppskrift. Gunnar stendur nú í ströngu við að kokka upp nýjar uppskriftir vikulega fyrir heiluspakkann hjá Einn, tveir og elda en spurn eftir hollum matarpökkum er mikil enda meistaramánuður farinn í gang.

Þessi uppskrift er fyrir 2. 

400 g kjúklingalæri, úrbeinuð
150 g gulrætur
1 stk. laukur
2 geirar hvítlaukur
100 g rjómaostur
50 g mozzarella
1 dós hakkaðir tómatar
2 stk. tómatar
2 msk. ítölsk kryddblanda
1/3 tsk. pipar
1/2 tsk. salt
2 greinar basil
1 msk. tómatpúrra
100 g salat
1/2 rauðlaukur
40 g fetaostur

Aðferð:

Skerðu gulræturnar í sneiðar og laukana smátt og steiktu upp úr olíu á pönnu þar til grænmetið er farið að mýkjast.

Skerðu kjúklinginn niður í 2-3 hluta hvert læri og bættu á pönnuna. Kryddaðu með kryddblöndunni og steiktu í 5 mínútur á hvorri hlið. Ef pannan er stór geturðu notað hana áfram en annars skaltu setja þessa blöndu í pott og bæta við hana tómatpúrrunni og hökkuðu tómötunum og láta malla í 10 mínútur. 

Saxaðu basilikuna og fersku tómatana frekar smátt og bættu í pottinn ásamt rjómaostinum. Hrærðu öllu vel saman. Helltu blöndunni í eldfast mót.

Skerðu mozzarella-ostinn í minni hluta og settu yfir réttinn og bakaðu í ofni í um 15 mínútur. Rífðu salatið gróft niður, saxaðu rauðlaukinn smátt og myldu fetaostinn. Blandaðu öllu saman í skál ásamt 1 msk. af olíu og klípu af salti. Berðu réttinn fram með salatinu.​

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert