Mætti með Baileys-köku í bekkjarpartý

Þetta er ekki kakan sem ég bakaði en mín hefði …
Þetta er ekki kakan sem ég bakaði en mín hefði litið sirka svona út ef ég hefði átt kakó og smjörkrem frá Bettý. mbl.is/Pinterest

Þessi kaka átti að vera allt öðruvísi. En stundum grípa örlögin í taumana með einkennilegum hætti eins og gerðist þegar þessi kaka var bökuð. Hún var ætluð í bekkjarpartý fyrir fjórða bekk þar sem börn og foreldrar koma saman og allir mæta með veitingar. Þar sem bakstur er að verða sérgrein mín eftir að ég fór á námskeið hjá Berglindi Hreiðars hjá Gotterí.is hef ég reynt að mæta með heimabakað við hvert tilefni – hvert sem mér er boðið.

Ég baka þó ekki frá grunni heldur nýti ég mér visku stórvinkonu minnar hennar Betty Crocker. Í þetta skiptið ákvað ég þó að flippa aðeins. Málið var að það átti að vera súkkulaðibragð af smjörkreminu en ég átti ekkert kakó. Því voru góð ráð dýr og mér datt ýmislegt misgáfulegt í hug. Niðurstaðan varð sú að ég fann tvö mars súkkulaðistykki inni í búrskáp sem ég bræddi saman við rjómalögg og setti út í kökudeigið. Það fannst mér snjöll hugmynd en þó nokkrir fagmenn hafa efast um ágæti þessarar gjörðar en sjálf fannst mér kakan bara betri. Ég setti líka góða lögg af kaffi út í deigið og í þetta sinn setti ég uppáhellt kaffi – ekki kaffiduft. Og svo auðvitað smá Baileys en það gerði ég áður en ég fattaði að það væri mögulega óviðeigandi fyrir bekkjarpartý...

Smjörkremið var að valda mér töluverðum höfuðverk þar sem ég átti ekki kakó. Ég íhugaði fyrst að setja bráðnaða Mars-súkkulaðið saman við en sá fyrir mér að það myndi hreinlega bráðna þar sem ég var búin að breyta kreminu töluvert og minnka sykurmagnið á kostnað smjörs og rjómaosts en sá böggull fylgir skammrifi að bæði þessi hráefni eiga það til að bráðna. Það var því ekki inni í myndinni þannig að næstskársta hugmyndin var Nesquick-kakómalt. Ég gerði fyrst prufu (sko mig) og setti kakómaltið og smá kaffi saman við smjörkremið og það var alveg hreint stórkostlegt þó að ég segi sjálf frá. Því var komin lending í málið. Kakan var sett saman og ég notaði óheyrilega mikið magn af smjörkremi. Inni í búrskápnum hafði ég jafnframt fundið litla sykurpúða sem ég setti á milli.

Ég sendi son minn og vin hans út í búð til að kaupa hvítt smjörkrem frá Betty til að hjúpa kökuna með og eins hjúpsúkkulaði sem ég ætlaði að bræða svo að kakan yðri almennileg drip-kaka. Málið vandaðist hins vegar þegar þeir félagar komu til baka úr búðinni með tyggjó. Bettý var ekki til og í eymd minni og volæði neyddist ég til að hjúpa kökuna með afgangs smjörkreminu og síðasta Mars-súkkulaðið var brætt í einhverri vonlausri tilraun til að gera fallegt drip.

Eitthvað heppnaðist það nú misjafnlega og því varð drippið hálfsjúskað en ég reyndi að redda því með því að skera niður Omnom-súkkulaði sem ég átti og nota sem skreytingu auk þess sem ég átti súkkulaðirúsínur og annað fínerí.

Ég hefði þó átt að svitna aðeins meira yfir þessum hamförum því kakan þótti gríðarlega vel heppnuð – svo vel reyndar að sonur minn tilkynnti mér stoltur að kennari hefði beðið hann um uppskriftina (en ég hafði skilið afganginn eftir á kennarastofunni).

Hér fyrir neðan er uppskriftin. Ég held að hún sé rétt en því miður er ég meira fyrir að slumpa á innihaldið og smakka til. Ráðlegg ykkur að gera slíkt hið sama.

Beileys-súkkulaðisprengjan sem sló í gegn

  • 2 pakkar af Djöflatertu frá Betty Crocker
  • 6 egg
  • slatti af vatni
  • slatti af olíu
  • slatti af Beileys
  • slatti af kaffi (vökvanum – ekki dufti)
  • 2 Mars-súkkulaði brædd saman við smá rjóma

Krem

  • 500 g saltað smjör við stofuhita
  • 700 g flórsykur
  • 300 g rjómaostur
  • Frekar mikið af kakómalti (grunsamlega mikið – hér er mikilvægt að smakka til)
  • Skvetta af kaffi (enn og aftur... smakkið til)

Aðferð:

  1. Bakið kökuna samkvæmt leiðbeiningum. Ætti ekki að vera flókið.
  2. Þeytið saman smjörið og flórsykurinn þar til það er orðið loftkennt og dásamlegt. Bætið þá rjómaostinum við. Því næst kakómalti og kaffi. Smakkið til.
  3. Setjið fyrsta botninn á kökudiskinn. Því næst krem. Því næst botn. Því næst krem. Því næst botn.
  4. Hjúpið kökuna með smjörkremi. Kælið þannig að kremið harðni.
  5. Bræðið mars (eða hjúpsúkkulaði eins og á að gera) saman við rjóma og látið renna niður hliðarnar á kökunni.
  6. Skreytið eins og vindurinn. Meira er ávallt betra.
  7. Mætið með kökuna og brosið fallega. Flestir munu spyrja hvort þú hafi keypt hana í 17 sortum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert