Má bjóða þér fléttað svínakjöt?

Lungamjúkt og hárrétt eldað.
Lungamjúkt og hárrétt eldað. mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Það er alltaf hressandi þegar við fáum uppskriftir sem mann rekur í rogastans yfir. Eins og þessi hér en auðvitað er það bara okkar eini sanni læknir í eldhúsinu sem lætur sér detta í hug að flétta kjöt.

Hann fullyrðir að þetta sé algjört ljúfmeti og hafi slegið í gegn við matborðið. Við drögum orð hans ekki í efa enda tala myndirnar sínu máli. Skyldu fléttaðar steikur verða sumarhittarinn í ár.

Girnilegt að sjá.
Girnilegt að sjá. mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson

Mögnuð svínasíðuflétta með sírópsgljáðum eplum og karmelliseruðum fennel

Fyrir 8

  • Svínasíða (um 3,5-4 kg)
  • 2 msk Djion sinnep
  • 2 tsk hunang
  • 1 tsk jómfrúarolía
  • salt og pipar
  • 3 msk jómfrúarolía
  • 1 msk salvía
  • nokkir fenneltoppar
  • safi úr hálfri sítrónu
  • 3 msk hvítlauksolía
  • salt og pipar
  • 2 fennel
  • 6 epli
  • 100 g smjör
  • 2 msk síróp salt og pipar
  • salat eftir smekk

Aðferð:

Mér tókst að kaupa svínasíðu á laugardegi. Fór í Krónuna á Höfðanum - og þar var til óvenjulega mikið af svínasíðum sem ég lét skera niður eftir mínu höfði.

Þegar heim var komið var síðan svo skoluð og þerruð og svo skar ég húðina af með beittum hníf og setti inn í ísskáp á disk til að þorna - þannig verður puran stökkari við eldun.

Ég hef áður eldað puruna sér - en fyrir jólin prófaði ég að gera purusteik með sous vide aðferð en betri puru er varla hægt að ímynda sér.

Svo var það verkefni að útbúa þessa fléttu. Ég fann mér góðar leiðbeiningar. Endaði með því að skera niður í fjóra bita, og svo hvern bita niður í 3 strimla - hver um sig fastur á öðrum endanum. Svo var kjötinu bara fléttað saman.

Þó að ég hafi eldað kjötið í ofni - þá hentar þetta líka einkar vel á grillið. Bitinn heldur sér alveg. Til að tryggja að kjötið haldi sér - stakk ég grillspjóti í gegnum endann - sem ég annars hefði bara bundið með snæri, en það var búið. Spjótið dugði mjög vel.

Ég blandaði sinnepinu, hunanginu og olíunni saman við og smurði ríkulega yfir tvær svínasíðufléttur. Saltaði og pipraði.

Hinar tvær flétturnar penslaði ég með hvítlauksolíu og saxaði síðan salvíu smátt og dreifði yfir.

Salvía og svínakjöt finnst mér alltaf passa einstaklega vel saman. Eins er það með fennel. Ég tók ofan af fennelnum og notaði toppana sem krydd ofan á svínaflétturnar.

Svínaflétturnar voru svo bakaðar í 180 gráðu heitum ofni í 30 mínútur og síðan við 150 gráður í tvær klukkustundir.

Fennelinn sjálfan skar ég svo í þunnar sneiðar. Og steikti upp úr 50 g af smjöri. Saltaði og pipraði.

Það tekur tíma að karmellisera fennelinn - það er best gert á heldur lágum hita. Þannig lokkar maður best fram sætuna í honum.

Flysjaði fimm epli og setti í skál með sítrónubættu vatni. Það kemur í veg fyrir að þau oxist og taki á sig brúnan lit.

Eplin voru svo skorin í báta og steikt upp úr restinni af smjörinu. Saltaði og pipraði. Þegar eplin voru farin að mýkjast hellti ég skvettu af hlynsírópi á pönnuna og sauð upp sírópið þannig að eplin hjúpuðust vandlega.

Puran verður fullkomin með þessari aðferð. Fyrst eru hún geymd í ísskáp í nokkrar klukkustundir til að þorna vel. Svo eru hún skorin með oddhvössum hníf - ekki alveg í gegn og salti nuddað í sárin.

Því næst eru puran sett inn í 200 gráðu heitan ofn í þrjú til fjögur kortér þangað til að hún poppast fallega og verður eins og kex. Kjötið kemur ótrúlega fallegt út úr ofninum.

Fléttan sem var pensluð með olíunni varð fallegri á að líta. Sinnepsgljáða varð dekkri, ekki brennd en sinnepið varð svarbrúnt á lit - nánast eins og það væri innbakað.

Kjötið varð fullkomlega lungamjúkt og safaríkt. Þessi matur rann ákaflega ljúfflega niður - eina sem vantaði var sósan. Alltént sagði konan mín það! Ég mun ekki klikka á því næst

Hér má sjá fléttað eldað svínakjöt.
Hér má sjá fléttað eldað svínakjöt. mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
Puran steikt eftir kúnstarinnar reglum.
Puran steikt eftir kúnstarinnar reglum. mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert