Súkkulaði sushi gerir allt vitlaust

Nestlé í Japan eru þekktir fyrir að koma með nýstárlegar …
Nestlé í Japan eru þekktir fyrir að koma með nýstárlegar útgáfur af KitKat súkkulaðinu. mbl.is/nestle.co.jp

Flestir kannast við KitKat, súkkulaðið góða í rauðu umbúðunum. Í Japan er súkkulaðið sérstaklega vinsælt og þykir ekkert slor að fá sér bita af því endrum og eins. Samkvæmt CBS News má rekja vinsældir súkkulaðisins til þess að KitKat svipar til japanska orðatiltækisins „kitto katsu“ sem þýðir „að vinna“. Því kann það góðri lukku að stýra fyrir nemendur að taka með sér KitKat súkkulaði til að maula í prófum, og einnig þykir fínt að gefa og fá KitKat súkkulaði að gjöf í Japan. Þó að við hérna í nyrðra könnumst bara við gömlu góðu útgáfuna af súkkulaðinu, þá fæst það í hvorki meira en minna en 350 mismunandi bragðtegundum í Japan. Þar á meðal með rommrúsínu bragði, grænu tei, sojasósu og sætum kartöflum.

Sköpunargleðin ræður ríkjum hjá Nestlé í Japan en þeir eru þekktir fyrir að koma með brjálæðislegar útgáfur af KitKat súkkulaðinu á hverju ári, og þá í takmörkuðu upplagi. Árið 2016 kom út rammáfengt KitKat með Sake bragði og árið þar á undan var súkkulaðið hjúpað ætu gulli. Í fyrra ætlaði allt um kolla að keyra þegar Nestlé kynnti KitKat Sushi til leiks. En í þeirri útgáfu voru þrjár bragðtegundir í boði, maguro (túnfiskur), tamago (egg) og uni (ígulker). Það var þó ekki fiskibragð af súkkulaðinu heldur bragðaðist maguro bitinn eins og hindber, tamago var með graskersbragði en Uni eins og melóna. KitKatið hvíldi á hrísi hjúpað hvítu súkkulaði sem lítur út eins og hrísgrjónabiti. Öllu var svo vafið inn í alvöru þara.

Við bíðum spennt eftir nýrri súkkulaðisprengju frá KitKat fyrir Japanska markaðinn þetta árið, en þá sem dreymir enn um KitKat Sushi þurfa ekki að örvænta. Útgáfan hlaut þvílíkar vinsældir að hún verður áfram til sölu í KitKat Chocolatory búðinni sem opnaði í síðasta mánuði á Alþjóðaflugvelli Osaka, undir handleiðslu Yasuaki Takagi súkkulaðimeistara.

Tamago bitinn er með graskersbragði sem ku tóna vel við …
Tamago bitinn er með graskersbragði sem ku tóna vel við þarann. mbl.is/nestle.co.jp
Maguro bitinn bragðast eins og hindber
Maguro bitinn bragðast eins og hindber mbl.is/nestle.co.jp
Uni bitinn með melónubragði rennur ljúflega niður.
Uni bitinn með melónubragði rennur ljúflega niður. mbl.is/nestle.co.jp
KitKat Chocolatory búðin opnaði nýlega á Alþjóðaflugvelli Osaka
KitKat Chocolatory búðin opnaði nýlega á Alþjóðaflugvelli Osaka mbl.is/nestle.co.jp
mbl.is