Hvernig á að halda matarboð án þess að elda

mbl.is/anthropologie

Sumum vex það í augum að halda matarboð, reyna of mikið að ganga í augun á matargestum með flóknum uppskriftum og flottheitum, sem endar oftar en ekki í stresskasti í eldhúsinu og mistökum. Það er vel hægt að halda fallegt matarboð án þess að enda sveittur í eldhúsinu og yfirsnúningi yfir pottum og pönnum. Það er í raun leikur einn að halda matarboð án þess að þurfa að sjóða svo mikið sem eina kartöflu. Þetta snýst einfaldlega um það að vera sniðugur að versla inn góðan mat og bera hann svo fram á fallegan hátt. Það gefur manni tíma til sjá um allt hitt sem þarf þegar halda á matarboð, eins og að eiga nóg af klaka, vera búin að kæla hvítvínið og kveikja á kertum of svo framvegis. Þá er hægt að taka á móti gestunum í rólegheitum og með yfirvegun í stað þess að standa í andyrinu með reitt hárið í algjörri örvinglan því þú ætlaðir þér of mikið, og ert ekki einu sinni byrjuð að huga að eftirréttinum.

Svona má halda lekkert matarboð án þess að elda.

Snarl:

Hafðu gott snarl á borðum þegar gestirnir mæta. Kíktu í matvöruverslun og verslaðu inn það sem þér líst vel á á borð við ólífur, osta, gott kex, og kjötmeti. Það er feykinóg að kaupa tvo góða osta og tvær tegundir af kjöti eins og hráskinku og gott salami. Settu þetta beint á fallegan bakka þegar þú kemur heim úr búðinni og stilltu upp á sófaborðið. Þá hafa gestirnir eitthvað til að snarla á meðan þú ert að “elda.”

Aðalréttur:

Bjóddu upp á góðan heilgrillaðan kjúkling sem þú kaupir tilbúinn í búð. Keyptu sítrónu og smávegis af ferskum kryddjurtum eins og dill, basil, myntu, kóríander og vorlauk. Þegar þú kemur heim skaltu skera kjúklinginn í átta bita og stinga þeim í ofninn. Ekki kveikja á ofninum fyrr en gestirnir koma og þá bara rétt til að hita kjúklinginn upp. Taktu vorlaukinn og sneiddu hann niður, saxaðu fersku kryddjurtirnar og settu allt í skál. Kreistu safa úr ferskri sítrónu yfir og sáldraðu smávegis ólífuolíu líka og inn í ísskáp. Þegar gestirnir koma máttu stilla heitum kjúklingnum upp á fallegan bakka og dreifa helmingnum af lauknum með kryddjurtunum yfir.

Meðlæti:

Finndu fallega kirsuberjatómata í búðinni og gúrku. Veldu svo eftirlætis kálið þitt. Þvoðu kálið þegar þú kemur heim svo það geti þornað áður en gestirnir koma. Það kemur vel út að gera tvö mismunandi salöt úr þessu. Annars vegar bara kálið með smávegis af ferskri sítrónu kreist yfir, dijon sinnepi, ólífuolíu, hunangi, salti og pipar. Svo skaltu sneiða tómatana í helminga og setja í skál, hella ólífuolíu yfir, salti og afganginum af lauk og kryddblöndunni sem fór á kjúklinginn. Skerðu gúrkuna niður og bættu saman við.

Finndu pakka af tilbúnu Naan brauði í búðinni og gríptu nóg fyrir sex manns. Ef ekki er til Naan brauð má nota pítubrauð. Finndu tilbúinn Hummus, og stóran dall af grískri jógúrt. Áður en þú berð brauðið fram skaltu sáldra smá ólífuolíu yfir það ásamt salti og pipar. og stingdu þeim í ofninn í nokkrar mínútur. Settu hummusinn í fallega skál með ólífuolíu, paprikukryddi, salti og pipar. Settu grísku jógúrtina í fína skál og kreistu smá sítrónusafa yfir og salt. Berðu þetta fram með kjúklingnum. Ef þú hefur auka tíma er lítið mál að hræra saman í eina Tzaziki sósu, en ljúffenga uppskrift af henni má finna hér:

Eftirréttur:

Eftirréttur þarf ekki að vera flókinn, en það er betra að bjóða upp á eitthvað frekar en ekki neitt. Allir elska rjómaís. Keyptu gæða vanilluís í búðinni og smávegis af ferskum ávöxtum sem þú getur skorið niður og málið er dautt. Ef þú átt flösku af góðum líkjör eða brandí er gott að dreifa smá yfir ávextina. Ef í harðbakkann slær má alltaf bjóða upp á gott kaffi og konfekt.

Við mælum með því að halda matarboð á föstudagskvöldi. Fólk kann að meta að þurfa ekki að elda sjálft eftir langa vinnuviku og flestir eru lausir. Þar sem þú ert í raun ekki að elda neitt, heldur bara að versla inn, skera niður og raða á bakka ættir þú vel að geta græjað allt eftir vinnu. Bjóddu matargestunum að koma klukkan 19:30 og þú ættir að ná að gera allt í tæka tíð og bjóða gestunum að setjast niður og borða klukkan 20:00.

Heimild: Epicurious

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert