Kjúklingabringur teknar upp á næsta stig

Það er fátt betra en góður kjúklingur sem búið er að matreiða á þann hátt að bragðlaukarnir enda í allsherjar sæluvímu. Þessi uppskrift er ein þeirra enda mætast hér sinnep og sulta í einu allsherjar bragðlaukapartýi. Við mælum sannarlega með að þið prófið þessa uppskrift því eins og meðfylgjand myndband sýnir er hún sérlega einföld.

Sinnepsmarineraðar kjúklingabringur:

 • 3 kjúklingabringur
 • 2 msk. Dijon-sinnep
 • 1 msk. balsamik-edik
 • 1 msk. rifsberjahlaup
 • 1 msk. ólífuolía
 • 2 msk. ferskt timjan, smátt skorið
 • 1 tsk. ferskt oregano
 • ½ tsk. salt
 • ½ tsk. pipar
 • 1 sæt kartafla
 • 1 búnt franskar baunir

Aðferð:

 1. Blandið saman dijon-sinnepi, balsamik-ediki og rifsberjahlaupi. Skerið timjanið og oreganóið smátt niður og blandið saman við ásamt salti og pipar.
 2. Smyrjið marineringunni jafnt yfir allar bringunar, látið marinerast í minnst klukkutíma eða yfir nótt.
 3. Flysjið sætu kartöfluna og skerið svo í u.þ.b. 1 cm þykkar sneiðar, setjið olíu í botninn á eldföstu móti og raðið kartöflunum í botninn. Setjið frönsku baunirnar og kjúklingabringurnar yfir, bakið í ofni í um það bil 40 mín. eða þangað til þær eru eldaðar í gegn.
mbl.is/
mbl.is