Öðruvísi kjötsúpa en þú átt að venjast

mbl.is/María Gomez

Hver elskar ekki alvörukjötsúpu - hvað þá þegar haustið er í lofti og kominn hrollur í kroppinn? Hér gefur að líta útgáfu frá Maríu Gomez á Paz.is en hér er um að ræða spænska útgáfu af kjötsúpu sem María fullyrðir að sé frábær. 

Við hvetjum ykkur til að prófa - það sakar ekki og það er aldrei að vita nema sú spænska standi jafnfætis þeirri íslensku. 

Öðruvísi kjötsúpa en þú átt að venjast

 • Ólífuolía
 • 1 kg úrbeinaður grísahnakki eða annað grísakjöt (gúllas t.d). Ef þið viljið ekki nota grís þá má nota kjúkling í staðinn.
 • 3 stórar bökunarkartöflur
 • 2 grænar paprikur
 • 2 gulir laukar
 • 4-6 hvítlauksrif
 • 150-200 gr grænar strengjabaunir (Haricods, til frosnar og ferskar í Bónus, má hvort sem er)
 • Stórt glas af grænum linsubaunum (þurfa ekki að vera útbleyttar)
 • 2 lítrar af vatni
 • 2 svínasoðsteningar
 • salt og pipar
 • Colorante (gulur litur sem er keyptur á Spáni) hægt er að nota saffran eða smá turmerik til að fá gulan lit á súpuna í staðinn.

Aðferð:

 1. Afhýðið laukana, takið hýðið af hvítlauksgeirunum og skerið paprikur í 6 ræmur langsum.
 2. Skrælið bökunarkartöflurnar og skerið í ágætisbita, ekki pínulitla heldur frekar stóra.
 3. Skerið næst laukana í fjóra parta langsum og berjið aðeins á hvítlaukskrifin.
 4. Setjið olíu í stóran pott þannig hún hylji botninn á pottinum.
 5. Setjið svo laukinn, hvítlaukinn og paprikuna út á heita olíuna og saltið vel og piprið.
 6. Leyfið grænmetinu að steikjast vel við háan hita og passið að hræra vel í því á meðan. Ilmurinn verður dásamlegur, ég lofa.
 7. Þegar grænmetið er byrjað að mýkjast setjið þá kjötið, sem er skorið í gúllasbita, út í pottinn með grænmetinu og leyfið því að taka á sig gráan lit. Þarf ekki að steikjast þannig að það verði brúnað. Saltið aftur vel yfir kjötið og piprið.
 8. Gott er að vera búin að sjóða vatn í hraðsuðukönnu og því svo hellt (2 lítrum) út á kjötið og tveir svínasoðsteningar með.
 9. Næst eru svo kartöflurnar, linsubaunirnar og strengjabaunirnar settar út á og suðan látin koma upp.
 10. Smakkið súpuna til og saltið eftir smekk. Ég vil hafa hana vel salta en þannig finnst mér hún langbest og bragðmest.
 11. Látið hana sjóða við vægan hita undir pottloki í minnst 30 mínútur.
 12. Best er að bera hana fram með stökku Baguette-brauði sem gott er að dýfa í heita súpuna.
mbl.is/María Gomez
mbl.is/María Gomez
mbl.is