LKL-kjúklingur sem er algjör negla

mbl.is/Einn, tveir og elda

Þessi uppskrift er algjörlega dásamleg og sérlega snjöll því hér er notast við hráefni sem kallað hefur verið hinn fullkomni staðgengill sætra kartafla í LKL-mataræðinu. Það lítur ekki aðeins eins út og sætar kartöflur heldur er bragðið einnig svipað  ef ekki betra.

Við erum að sjálfsögðu að tala um grasker en uppskriftin kemur úr smiðju Einn, tveir og elda en þar á bæ er að finna afar snjallar lausnir og skemmtilegar uppskriftir en að sögn talsmanna fyrirtækisins hafa LKL-pakkarnir verið gríðarlega vinsælir nú í janúar og ljóst að landinn er að hugsa um heilsuna.

Hér kemur ein dásamleg uppskrift að kjúklingaleggjum sem eru marineraðir í Dijon-hvítvínssósu og bornir fram með ofnbökuðu brokkolí og graskersmús.

LKL-kjúklingur sem er algjör negla

Hráefni fyrir fjóra:

 • 12 stk. kjúklingaleggir
 • 200 gr. brokkolí
 • 600 gr. grasker
 • 1 stk. sítróna
 • 2 hvítlauksgeirar

Sósugrunnur:

 • 250 ml rjómi
 • 50 ml hvítvín
 • 2 tsk. Dijon-sinnep
 • 1 stk. kjúklingakraftur

Aðferð:

 1. Hitið vatn í potti, skerið graskerið í teninga og sjóðið í 10-15 mínútur eða þar til auðvelt er að stinga í gegnum bitana. Þegar þeir eru orðnir mjúkir skulið þið sigta vatnið frá og stappa bitana saman ásamt smjörklípu og salti.
 2. Hitið ofninn í 200°. Blandið sósugrunninum saman. Kryddið kjúklingaleggina vel með salti og pipar.
 3. Hitið 4-6 msk. af smjöri eða olíu á pönnu og steikið kjúklingaleggina í 6-8 mínútur eða þar til þeir eru orðnir gylltir. Veltið þeim reglulega.
 4. Hellið sósugrunninum yfir kjúklinginn á pönnunni og leyfið þessu að malla á meðalháum hita í 10-15 mínútur.
 5. Skerið brokkolíið í bita, saxið hvítlauk og setjið sirka 4-5 msk. af olíu yfir og kreistið hálfa sítrónu yfir. Bakið í ofninum í 5-10 mínútur.
mbl.is