Nú er hægt að kaupa matarpakka fyrir þrjá

mbl.is/Facebook

Lífið er sífellt að verða þægilegra og nú hafa Einn, tveir og elda kynnt nýja þjónustu við neytendur sem felur í sér matarpakka fyrir þrjá en hingað til hefur það ekki verið í boði. 

„Það voru margir sem voru búnir að senda okkur fyrirspurnir um þetta enda t.d. margar ungar fjölskyldur með eitt barn og þá er of lítið að kaupa pakka fyrir tvo en kannski heldur mikil sóun að kaupa pakka fyrir fjóra,“ segir talsmaður Einn, tveir og elda.

Skref í átt að minni matarsóun

Einn af hornsteinum fyrirtækisins er að minnka matarsóun og segir í tilkynningu frá fyrirtækinu það hafa verið rökrétt skref að bjóða upp á þessa auknu þjónustu. „Þessu hefur verið vel tekið af viðskiptavinum okkar, mun betur en við áttum nokkurn tímann von á.“

Ásamt þessu hefur Einn, tveir og elda einnig breytt uppskriftarspjöldunum hjá sér. „Við gerðum þau stærri og veglegri. Þannig verða þau töluvert eigulegri, myndirnar njóta sín betur og við höfum meira pláss til að bæta við næringarupplýsingum og fánýtum fróðleik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert