Áfall fyrir íslenska veitingageirann

Þrátt fyrir að Íslendingar státi af framúrskarandi matreiðslufólki og veitingastöðum varð íslenski veitingageirinn fyrir áfalli í gær þegar Dill, eini íslenski veitingastaðurinn sem hafði hlotið Michelin-stjörnu, missti stjörnuna. 

Talsmenn Dill segjast ætla að nota tækifærið og tala sig saman en það samtal kann að koma full seint enda er ekki hlaupið að því að endurheimta stjörnuna. 

Það sem einnig vekur athygli er að einungis einn íslenskur veitingastaður hafi fengið stjörnu en almennt má segja að íslenskir veitingastaðir séu afskaplega góðir og gæðin hér mikil. 

Hvort þetta endurspegli ástandið í veitingageiranum í dag skal ósagt látið en líklega hefur það eitthvað að segja. Er þá átt við erfiðar rekstraraðstæður; mikla samkeppni, háa starfsmannaveltu, gríðarlega háan launakostnað, háan hráefniskostnað, hátt leiguverð og svo mætti lengi telja. 

Hvert svo sem svarið er þá er þetta mikið áfall fyrir íslenska veitingamennsku og ljóst að töluvert þarf að breytast svo veitingastaðir geti blómstrað hér á landi.

Alls misstu fimm staðir Michelin-stjörnu sína, Dill og svo fjórir í Svíþjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert