Ert þú að borða eitraðar kartöflur?

Umræða hefur sprottið upp á samfélagsmiðlum þar sem því er velt upp hvort of mikið magns sólaníns sé í kartöflum. Matarvefurinn fór að sjálfsögðu á stúfana og samkvæmt upplýsingum sem er að finna hjá Matvælastofnun eða MAST er sólanín efni sem er að finna í öllum kartöflum en hér á landi eru flestar kartöflur vel undir hámarksgildum.

Hins vegar ber að hafa í huga að ekki skal borða grænar kartöflur þar sem þær innihalda of mikið magns sólaníns. Eins skuli geyma kartöflur á dimmum og köldum stað. Eins skal forða þeim frá hnjaski og sólarljósi.

Inn á vef MAST segir meðal annars:

„Mikið hnjask og sólarljós stuðlar að myndun efnisins. Rannsóknir á kartöfluafbrigðum sem ræktuð eru hér á landi hafa sýnt fram á að þau innihalda almennt sólanín undir þeim hámarksgildum sem gefin eru upp í reglugerð um aðskotaefni í matvælum.“

Samkvæmt leiðbeiningum frá MAST skal ætíð:

  • Framleiðendur og pökkunaraðilar eiga að flokka grænar kartöflur frá í framleiðslu.
  • Pökkunaraðilar verða að sjá til þess að kartöflurnar séu geymdar í myrkri meðan þær stoppa hjá þeim.
  • Verslanir verða að sjá til þess að sem minnst lýsing sé á kartöflum meðan þær eru í búðinni, t.d. geyma þær í dimmum kössum sem viðskipavinir taka kartöflurnar úr eða í dökkum umbúðum.
  • Neytendur ættu að geyma kartöflur á dimmum stað heima fyrir.
  • Varist að borða skemmdar og/eða grænar kartöflur.

Þetta eru því nausynlegar leiðbeiningar fyrir þá sem rækta sjálfir því allur er varinn góður.

Nánar er hægt að lesa um sólanín inn á vefsíðu MAST.

mbl.is