Alvöru hunangsrúlluterta eins og maður fékk í gamladaga

Ljósmynd/Hanna Þóra

Rúllutertur eru alltaf klassík og þessi hér kemur úr smiðju Hönnu Þóru sem bloggar inn á hanna.is. Hún segir rúllutertur vera algjörlega málið og ekki spilli fyrir hvað þær séu ljúffengar.

„Ég hef gaman af því að prófa nýjar útgáfur og fékk þessa uppskrift hjá Dagnýju vinkonu minni en amma hennar bakaði þessa köku oft. Þá setti hún líka rabarbarasultu á milli en ég sleppti því þar sem ég á enga slíka sultu í ísskápnum. Þessi er ólík þeim sem ég hef gert áður – hún er meira krydduð og minnir mig skemmtilega á að jólin eru á næsta leiti. Ég mæli með því að æfa sig í rúllutertum – auðveldara og ódýrara en að fara og kaupa eitthvað tilbúið í eftirrétt."

Hunangsrúlluterta - einföld og góð

Botn

 • 100 g sýróp
 • 50 g sykur
 • 125 g hveiti
 • 1 tsk. engifer
 • 1 tsk. matarsódi
 • 1 tsk. kanill
 • 1 msk. súrmjólk
 • 1 tsk. kardimomma
 • 2 egg
 • ½ tsk. salt

Krem

 • 150 g smjör við stofuhita
 • 2 dl flórsykur
 • 2 tsk. vanillusykur
 • 1 eggjarauða

Verklýsing

 1. Ofninn hitaður í 200°C (blástursstilling)
 2. Allt hráefni í botninn sett í skál og þeytt
 3. Deigið sett á smurðan bökunarpappír (olía eða smjör) í ofnskúffu – dreift jafnt út
 4. Bakað í 6 – 8 mínútur. Mikilvægt að fylgjast með þar sem kakan er fljót að verða dökk
 5. Hvolft á sykurstráðan bökunarpappír. Pappírinn dreginn af og ofnskúffan látin yfir á meðan kakan kólnar

Smjörkrem

 1. Smjör og sykur þeytt saman
 2. Vanillusykri bætt í og síðast eggjarauðu – þeytt saman

Samsetning

 1. Smjörkremið sett á kökuna – gott að nota spaða eða hníf.  Þeir sem vilja geta dreift rabarbarasultu yfir smjörkremið
 2. Kökunni rúllað upp – það getur verið fallegt að skreyta með flórsykri.  Mér finnst best að bera kökuna fram við stofuhita en það er smekksatriði hvort tertan sé betri köld en þá er smörkremið harðara
 3. Góð ein og sér en líka með rjóma og/eða smá sultu

Geymsla:  Best nýbökuð en líka góð daginn eftir.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

Svo megið þið endilega tagga okkur á Instagram þegar þið eruð að elda eitthvað spennandi @matur.a.mbl

mbl.is