Hættu nú alveg Linda!

Ljósmynd/Linda Ben

Linda Ben heldur áfram að toppa sig. Mér finnst þessi kaka svo falleg að ég fékk bókstaflega fyrir hjartað og er staðráðin í að baka hana sjálf.

Linda segir (og við erum sammála henni) að þessi konfekt marengsterta henti fullkomlega á aðventunni. Marengsinn sé í laginu eins og jólakrans og skreytingarnar í hátíðarbúningi; sykruð trönuber og ferskt rósmarín sem minni óneitanlega á greini. Fyllingin sé algjörlega himnesk, fersk jarðaber og Anthon Berg konfekt sem svíkur engan!

Matarbloggið hennar Lindu er hægt að nálgast HÉR.

Konfekt marengsterta

Marengs krans:

 • 6 eggjahvítur
 • 3,5 dl sykur
 • 2 tsk kornsterkja (maizena mjöl)
 • 2 tsk vanilludropar
 • 2 tsk hvítvíns edik

Aðferð:

 1. Stillið ofninn á 120ºC.
 2. Notið fullkomlega hreina hrærivéla skál, setjið eggjahvíturnar í skálina og notið þeytarann.
 3. Blandið kornsterkjunni út í sykurinn, hrærið saman.
 4. Þeytið eggjahvíturnar mjög rólega fyrst, setjið 1 tsk af sykri út í eggjahvíturnar í einu á ca ½ mín fresti, aukið hraðann hægt og rólega eftir því sem þið setjið meiri sykur út í (þolinmæðisverk en þó þess virði).
 5. Blandið saman vanilludropum og hvíta borðedikinu, hellið blöndunni út í þegar eggjahvíturnar hafa náð stífum toppum og hrærið saman við þar til allt hefur blandast vel saman og marengsinn er orðinn mjög stífur
 6. Teikniði 22 cm hring á sitthvoran smjörpappírinn og svo annan minni hring inn í, snúið smjörpappírnum við (svo pennastrikið sé niður) festiði smjörpappírinn á ofnplötu með því að setja örlítið deig undir hornin á smjörpappírnum og klessið við ofnplötuna.
 7. Setjið marengsinn inn á milli hringanna tveggja sem teiknaðir voru á smjörpappírinn, sléttið úr með skeið svo það myndist heill krans, takið svo bakhliðina af skeiðinni og myndið einskonar skurð í hringinn (fyrir fyllinguna). Til þess að mynda slétta framhlið á hringinn takið bakhliðina af skeið aftur og byrjið neðst og dragið upp svo myndist toppar á ytri hlið hringsins.
 8. Bakið í u.þ.b. 90-120 mín, slökkvið svo á ofninum en ekki opna ofninn. Látið kökuna kólna með ofninum. Takið hana út þegar ofninn hefur kólnað fullkomlega.

Fylling:

 • 700 ml rjómi
 • 330 g Anthon Berg Sweet Moments konfekt (tveir pokar)
 • 250 g jarðaber
 • 70 g súkkulaði
 • 50 ml rjómi
 • Ferskt rósmarín
 • Trönuber
 • 1 dl sykur

Aðferð:

 1. Færið kökuna mjög varlega af smjörpappírnum og á kökudisk.
 2. Þeytið rjómann. Skerið jarðaberin smátt niður og alla konfektmolana nema 6 stk niður í 4 hluta. Blandið því saman við rjómann og setjið ofan á marengsinn.
 3. Hitið rjómann og súkkulaðið saman yfir vatnsbaði og hrærið saman, dreifið súkkulaðinu yfir rjómann, fallegt að láta leka smá niður hliðar marengsins.
 4. Veltið trönuberjum upp úr sykri og setjið á rjómann, klippið niður rósmarín og setjið meðfram trönuberjunum.
 5. Skreytið með heilum Anthon Berg konfektmolum
Ljósmynd/Linda Ben
mbl.is