Tertan sem þykir sú allra lekkerasta

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Alvörutertur eru máttarstólpi hverrar góðrar veislu og ef einhver kann að baka góða tertu þá er það veisludrottningin Berglind Hreiðars höfundur hinnar óborganlegu Veislubókar sem kölluð hefur verið handbók veisluhaldarans.

Marsípan og marengs

Marsípanbotn

  • 140 g smjör við stofuhita
  • 150 g sykur
  • 200 g Odense-marsípan
  • 2 egg
  • 150 g hveiti
  1. Hitið ofninn 170°C.
  2. Hrærið saman smjör, sykur og marsípan með K-inu þar til vel blandað.
  3. Setjið þá eggin saman við, eitt í einu, og skafið vel niður á milli.
  4. Að lokum fer hveitið saman við þar til deigið er vel blandað.
  5. Setjið bökunarpappír í botninn á um 20 cm bökunarformi og spreyið síðan hliðar og pappír vel með matarolíuspreyi og dreifið deiginu jafnt yfir formið.
  6. Bakið í um 30 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn út og botninn fer að gyllast í hliðunum, kælið.

Marengsbotn

  • 3 eggjahvítur
  • 210 g púðursykur
  1. Hitið ofninn 130°C.
  2. Þeytið eggjahvítur og púðursykur þar til topparnir halda sér.
  3. Teikning hring á bökunarpappír með sama formi og marsípanbotninn er bakaður í.
  4. Dreifið síðan úr marengsinum innan hringsins en skiljið um ½-1 cm eftir allan hringinn þar sem marengsinn mun leka aðeins til hliðanna. Mér fannst fallegt að hafa hann aðeins kúptan í miðjunni svo ég dreifði úr honum þannig og það kom mjög vel út.
  5. Bakið í 60 mínútur og slökkvið þá á ofninum og leyfið botninum að kólna í honum án þess að opna (þá eru meiri líkur á því að hann haldi lögun sinni).

Núggatsósa

  • 220 g Odense-núggat
  • 150 g dökkir Odense-súkkulaðidropar
  1. Bræðið núggat og súkkulaðidropa í vatnsbaði þar til bráðið.
  2. Takið af hitanum og leyfið að ná stofuhita, hrærið reglulega í á meðan og geymið.

Rjómi á milli

  • 500 ml rjómi (þeyttur)
  • 100 g dökkir Odense-súkkulaðidropar (saxaðir smátt)
  1. Vefjið söxuðu súkkulaði saman við þeyttan rjómann og geymið.

Samsetning

  1. Setjið marsípanbotninn á fallegan kökudisk.
  2. Hellið um 2/3 af núggatsósunni ofan á botninn og dreifið jafnt úr.
  3. Setjið næst þeytta rjómann með súkkulaðinu ofan á núggatsósuna.
  4. Þá fer marengsbotninn ofan á rjómann og að lokum má láta restina af núggatsósunni leka ofan á marengsbotninn.
  5. Gott er að geyma kökuna í kæli í nokkrar klukkustundir eða yfir nótt áður en hennar er notið.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert