Pítsusnúðarnir sem gerðu allt vitlaust

Ekki týpískir pítsasnúðar - þessir eru betri en þeir sem …
Ekki týpískir pítsasnúðar - þessir eru betri en þeir sem þú hefur smakkað til þessa. mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir

Við elskum pítsasnúða og þessir eru engin undantekning, þar sem þeir eru allt annað en hefðbundnir – og gefa týpískum snúðum ekkert eftir. Þessir snúðar innihalda beikonsmurost, tómatpúrru, lauk, sýrðan rjóma og cheddar ost!

Uppskriftin kemur frá Hildi Rut sem færir okkur hér enn eina freistinguna til að sýsla í eldhúsinu.

Ekki týpískir pítsasnúðar (14-16)

 • 400 g hveiti
 • 1 tsk salt
 • 1 bréf ger (12 g)
 • 40 g smjör
 • 1 msk hunang
 • 1 dl vatn
 • 0,8 dl mjólk
 • 1 egg

Fylling

 • 20 g smjör
 • 2 skarlottulaukar, smátt skornir
 • 140 g tómatpúrra
 • 1 pkn beikonsmurostur (má vera annar smurostur)
 • 1 msk sýrður rjómi
 • Oregano
 • Salt og pipar

Toppa með

 • Cheddar osti
 • Oregano

Aðferð:

 1. Blandið saman hveiti, salti og geri.
 2. Bræðið smjörið og blandið saman við hunang, vatn og mjólk. Passið að blandan verði ekki of heit.
 3. Hrærið smjörblöndunni saman við hveitiblönduna og bætið síðan egginu saman við.
 4. Hnoðið vel saman með höndunum eða í hrærivélinni þangað til að deigið er komið saman.
 5. Smyrjið skál með olíu, látið deigið ofan í og leggið viskustykki yfir. Látið deigið hefast í skálinni í klukkustund.
 6. Gerið fyllinguna á meðan deigið er að hefast. Bræðið smjör í potti og steikið skarlottulaukinn þar til hann mýkist aðeins.
 7. Bætið við smurostinum, tómatpúrrunni, sýrðum rjóma, oregano, salti og pipar og hrærið vel saman.
 8. Fletjið deigið út. Mér finnst gott að fletja það á smjörpappír en það er líka fínt að gera það beint á borðið. Smyrjið fyllingunni yfir deigið og stráið cheddar osti yfir. Rúllið deiginu upp og skerið í kringum 14-16 bita.
 9. Smyrjið eldfast mót og raðið snúðunum í það. Passið að hafa smá bil á milli þeirra.
 10. Stráið cheddar osti og oregano yfir snúðana og bakið í ofni við 180°C í 20-25 mínútur eða þar til snúðarnir eruð orðnir gylltir og fallegir.
mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir
mbl.is