Algeng mistök við heimilisþrifin

mbl.is/Lauren Volo

Þværðu gluggana í sólskini eða spreyjarðu hreinsiefni beint á flötinn sem þú ætlar að þurrka af? Þá skaltu hætta því núna og spara þér sporin með því að forðast eftirfarandi atriði í næstu þrifum.

Heimatilbúin hreinsiefni

Það finnast ótal heimagerð hreinsiefni sem eru góð út af fyrir sig en ná kannski ekki alltaf að vinna á erfiðustu blettunum. Það er fínt að nota heimagerðar blöndur en þú skalt líka eiga sterkari búðarkeypt efni svo þú endir ekki með að eyða tífalt meiri tíma í að þrífa en ella.

Fjaðurkústur

Það er skemmtilegt og krúttlegt að nota fjaðurkúst í þrif, en í raun ertu að flytja rykið frá einum stað yfir á annan. Notaðu frekar örtrefjaklút til að þurrka af þar sem hann safnar rykinu saman í stað þess að dreifa því.

Gluggaþvottur í sólskini

Það er freistandi að þvo gluggana í glampandi sól – en það er á sama tíma mjög slæm hugmynd. Hitinn frá sólinni þurrkar gluggann mun fyrr en ella, og því nærðu ekki að pússa hann almennilega og eftir sitja rákir og meiri vinna fyrir vikið.

Þú gengur um á skóm innandyra

Þetta er mjög einfalt reikningsdæmi. Farðu úr skónum við útidyrnar í stað þess að dreifa sandi, skít og bakteríum um allt hús.

Þú gleymir að þrífa ryksuguna

Ef þú tæmir ekki ryksugupokann reglulega missir ryksugan kraftinn. Eins skaltu muna að þrífa ryksuguhausinn, hann fyllist gjarnan af hárum og kuski sem þú heldur bara áfram að dreifa um alla íbúð ef þú þrífur hann ekki.

Baðherbergisviftan

Viftan á baðherberginu er þinn besti vinur þegar þarf að hreinsa loftið inni í rýminu, en það er líka mjög mikilvægt að þrífa viftuna reglulega til að hún fyllist ekki af ryki og myglu.

Þú spreyjar hreinsiefni beint á flötinn

Þegar þú spreyjar hreinsiefni beint á flötinn getur myndast blettur og erfiðara er að þrífa yfirborðið. Spreyið alltaf beint í klút og þurrkið þannig yfir húsgögn og annað sem þarf að þrífa.

Þú þrífur ekki reglulega

Það getur verið freistandi að hoppa yfir ákveðin verk á heimilinu þegar mikið er að gera, en það eina sem stendur upp úr er enn meiri skítur og erfiðari blettir fyrir vikið.

mbl.is/Colourbox
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert