Elísabet Gunnars velur íslenska hönnun

Elísabet Gunnars elskar góðan kaffibolla, enda innflutningsaðili Sjöstrand hér á …
Elísabet Gunnars elskar góðan kaffibolla, enda innflutningsaðili Sjöstrand hér á landi. mbl.is/Aðsend mynd

Við tókum púlsinn á Elísabetu Gunnarsdóttur, eiganda og tískubloggara Trendnet.is, og spurðum hana út í uppáhaldsbollann hennar sem er splunkunýr - íslensk hönnun frá KER.

Elísabet býr í Danmörku ásamt eiginmanni og tveimur börnum og elskar gott kaffi. Enda innflutningsaðili kaffifyrirtækisins Sjöstrand hér á landi, sem hefur verið að gera góða hluti með einstaklega bragðgott hágæðakaffi — og ekki skemmir fyrir að vörurnar þeirra eru umhverfisvænar.

Við gátum ekki annað en spurt Elísabetu nánar út uppáhaldsbollann hennar sem hún nýverið fékk að gjöf.

Hver er uppáhaldsbollinn þinn?
Ég er Royal Copenhagen-kona en ætli ég verði samt ekki að nefna nýja bollann minn frá KER sem er nýtt uppáhald. Stærðin á honum er fullkomin fyrir minn smekk (americano-stærð) og við eiginmaðurinn erum mjög hamingjusöm að hafa loksins eignast eintak. KER fæst beint af kúnni hjá þeim á vinnustofunni og einnig hjá HAF-hjónum á Geirsgötu þar sem ég kynntist merkinu fyrst.

Hvar og hvenær áskotnaðist þér bollinn?
Ég fékk bollann í afmælisgjöf þann 6.maí síðastliðinn — hann var fljótur á leiðinni yfir hafið til Danmerkur þar sem ég opnaði gjöfina í garðinum hér heima á deginum mínum.

Hvað gerir bollann sérstakan?
Mér finnst bollinn alveg einstakur fyrir það leyti að hann er íslensk hönnun og ég veit nákvæmlega hver hefur rennt og skapað bollann, eytt vinnu í hann og vandað til verka. Mér finnst einnig frábært að þeir eru gerðir úr íslenskri eldfjallaösku og það er gaman að segja frá því, búandi erlendis.

Hefur verið spáð í bollann?
Ekki enn — ég er bara búin að eiga hann í þrjá daga þegar þetta er skrifað. Óska hér með eftir jákvæðri bollaspákonu!

Hvað finnst þér best að drekka úr bollanum?
Kaffi er minn drykkur — ilmandi heitt og gott Sjöstrand-kaffi. Nýjasta æðið hjá mér er espresso með dassi af flóaðri haframjólk, mixað af manninum mínum.

Fær einhver annar í fjölskyldunni að nota bollann?
Að sjálfsögðu! Maðurinn minn notar hann og einnig gestir — allir mega njóta.

En fyrir utan að bjóða Íslendingum upp á kaffi er nóg um að vera á vinsælustu bloggsíðu landsins,Trendnet.is, sem margir kannast við að renna í gegnum með kaffibolla við hönd og lesa um tísku, uppskriftir, hönnun eða annars konar afþreyingu.

„Miðjubarnið mitt, Trendnet, hefur haldið okkur við efnið á Covid-tímum. Miðillinn hefur verið frábær vettvangur á þessum skrítnu tímum — hvort sem það er tíska, heimili, hönnun eða lífsstíll þá eru þetta ávallt jákvæðar greinar frá frábærum hópi mismunandi einstaklinga sem veita lesendum innblástur."

„Ég fékk skilaboð frá lesanda á dögunum sem sagði mér að Trendnet hefði verið sálrænt meðal á þessum tímum og gladdi það mig mjög. Stóra spurningin er auðvitað hvort tíska og hönnun fái allt aðra þýðingu eftir þetta ástand — en það er efni í annað viðtal,” segir Elísabet að lokum.

Uppáhaldskaffibollinn hennar Elísabetar er íslensk hönnun frá KER.
Uppáhaldskaffibollinn hennar Elísabetar er íslensk hönnun frá KER. mbl.is/Aðsend mynd
Gunnar Steinn, eiginmaður Elísabetar, hér í morgunsólinni í Danmörku með …
Gunnar Steinn, eiginmaður Elísabetar, hér í morgunsólinni í Danmörku með bollann góða. mbl.is/Aðsend mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert