Mikil eftirvænting fyrir íslensku próteinpoppi

Ljósmynd/Iðnmark

Undanfarna mánuði hefur Iðnmark unnið að vöruþróun á nýjum vörum og á næstu vikum koma þrjár nýjar tegundir í verslanir sem eflaust á eftir að gleðja marga enda Stjörnusnakk rótgróið við þjóðarsálina. „Við höfum fundið fyrir miklum meðbyr hjá verslunum að framstilla í auknum mæli íslenskum vörum og viðskiptavinir okkar eru í auknum mæli að velja íslenska framleiðslu,“ segir Sigurjón Dagbjartsson framkvæmdastjóri Iðnmarks um nýjungarnar.

„Próteinpoppið er alveg ný framleiðsla og má segja að þetta poppkorn sé það eina í heiminum sem er með um 20% prótein. Próteinið kemur frá íslenskum bændum og er unnið úr mysu frá Kaupfélagi Skagfirðinga Mjólkursamlagi. Próteininu er úðað á poppkornið ásamt kókosolíu.“

„Maísinn í þessum poka er sérræktaður og er kallaður „hvíti maísinn“, hann er trefjaríkur, inniheldur einnig flókin kolvetni og er sykurlaus. Próteinpopp er poppað í heitum loftstraumi sem eykur gæði þess og síðan er kókosolíu sem hituð hefur verið í 30° úðað á poppkornið ásamt orkupróteini.“

Nýtt Stjörnusnakk einnig væntanlegt

„Við vöruþróun er gott að hafa í huga hvar göt eru á markaðinum og skilja hverju viðskiptavinir eru að leita að í snakkvörum. Eftir töluverðan tíma ákváðum við að setja tvær nýjar tegundir, það er Laukhringir og Buffalo-Beikon,“ segir Sigurjón og bætir við að það sé áhugavert að þegar Iðnmark hóf fyrst snakkframleiðslu fyrir 30 árum hafi fyrsta varan einmitt verið laukhringir. Þeir verði kryddaðir með laukkryddi og steinselju og munu ábyggilega gleðja marga gallharða snakkaðdáendur.

„Buffalo-Beikon-snakkið er með miklu reykbragði og er með sterkum keim af beikonkryddi,“ segir Sigurjón um beikonsnakkið. „Við vöruþróun á þessari einstöku vöru vorum við að spá í svínarif sem hafa verið grilluð upp úr kjötmarineringu og bragðið ber svipaðan keim. Þessi vara er alveg tilvalin í að draga fram þar sem fjölskyldan kemur saman í grillpartíum eða í Eurovision-hitting.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert