Svakalega gott nautasalat með brakandi fersku góðgæti

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Ef það er til eitthvað sem hentar við öll tilefni þá er það matur á borð við nautasalat. Hollt en samt syndsamlega gott...

Berglind Hreiðars á Gotteri.is kíkti við á sveitahótelinu Hraunsnefi á dögunum þar sem hún keypti dásemdar nautakjöt beint af býli sem hún nýtti í salatið.

„Kjötið er dásamlega gott og snilld að hægt er að fá pakka með nautastrimlum til að nota í salat, asíska rétti eða annað sniðugt. Þórunn vinkona eldaði þetta nautasalat og notaði nautastrimlana. Hún deildi mynd af góðgætinu með okkur hinum og við fengum auðvitað allar strax uppskrift og nú er hún komin hingað inn fyrir ykkur að njóta!"

Nautasalat

 • 500 g nautastrimlar frá Hraunsnefi
 • 80 g soyasósa
 • 70 g púðursykur
 • 1 ferskt chili (smátt saxað)
 • Blandað salat + klettasalat
 • Kirsuberjatómatar
 • Rauðlaukur
 • 50 g grænt pestó
 • 30 g ólífuolía
 • 20 g olía af fetaostinum
 • 2 hvítlauksrif (rifin)
 • ½ krukka fetaostur
 • Salt og pipar
 • Sesamfræ
 • Wasabi hnetur (muldar)
 • Majónes til að sprauta yfir í lokin

Aðferð:

 1. Brúnið nautastrimlana stutta stund upp úr ólífuolíu, saltið og piprið, takið af pönnunni.
 2. Hitið saman púðursykur, soyasósu og chili á pönnunni þar til sykurinn er uppleystur og setjið kjötið saman við og leyfið að malla lágum hita á meðan annað er útbúið.
 3. Setjið salat, tómata og rauðlauk í fallega salatskál.
 4. Blandið pestó, ólífuolíu og hvítlauk saman í skál og setjið smá yfir salatið og hafið restina til að bera fram með salatinu.
 5. Setjið fetaost, sesamfræ og muldar Wasabi hnetur yfir grænmetið ásamt nautastrimlunum.
 6. Sprautið að lokum smá majónesi yfir allt og gott er að bera salatið fram með góðu brauði.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is