Nýtt íslenskt heilsusnakk

Væntanleg er í verslanir ný íslensk vara sem kallast „fish & chips“ og er tilbrigði við einn vinsælasta rétt heims. Um er að ræða þurrkaðan fisk og kartöflurflögur þar sem hollustan er sett í fyrirrúm en hver poki inniheldur 100 grömm og 27 grömm af próteini.

Það er íslenska matvælafyrirtækið Bifröst Foods sem stendur að baki vörunni sem hefur verið að fá afbragðsviðtökur hjá prufuhópum sem sögð er henta vel sem heilsusnakk í útileguna, í nesti fyrir krakka, í bakpokann fyrir göngu eða hjólaferðir.

„Harðfiskurinn er sannkölluð ofurfæða, það vita Íslendingar og Asíu-búar best. Hann inniheldur steinefni, vítamín og Omega-3 fitusýrur en auðvitað er það staðreyndin að hann er 84% prótein sem gerir hann eftirsóknarverðan í svona skyndimáltíð. Kartöflurnar gefa svo kolvetni á móti fisknum, auk þess að innihalda mikið af vítamínum. Fiskur og kartöflur er einfaldlega frábær máltíð, og það að geta sett saman svona mikla næringu, heila máltíð, sem vegur aðeins 100 grömm er kjörið fyrir svo marga á ólíkum forsendum,“ segir meðal annars í tilkynningu frá Bifröst Foods.

Heilsusnakkið er væntanlegt í verslanir í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert