Leggja bann við hundakjötsáti

AFP

Stjórnvöld í Siem Reap-héraðinu í Kambódíu hafa riðið á vaðið með að banna hundakjötsát, fyrst þarlendra héraða, og fylgja þar með fordæmi Shenzhen-héraðsins í Kína þar sem hunda- og kattaát var bannað í apríl.

Viðurlög við hundakjötsáti í Siem Reap verða allt að fimm ára fangelsi eða háar fjársektir, allt frá sjö til 50 milljóna ríla, en efri mörkin samsvara um 1,7 milljónum íslenskra króna og má hafa það til samanburðar að samkvæmt alþingissamþykkt frá 1596 var hverjum þeim, er æti hrossakjöt að nauðsynjalausu, gert að greiða þriggja marka sekt og húðstrýkjast að auki.

Kaupendur frá Kóreu

Hundakjötsát er reyndar ekki mikið tíðkað í Kambódíu nú til dags, um tólf prósent þjóðarinnar neyta afurðarinnar reglulega, að sögn dýraverndunarsamtakanna Four Paws. Ferðamannastraumur hin síðustu ár hefur, að sögn Tea Kimsoth, forstöðumanns landbúnaðarstofnunar héraðsins, leitt til stóraukinnar spurnar eftir hundakjöti í Kambódíu og eru ferðamenn frá Suður-Kóreu stærstu kaupendurnir að hans sögn.

Four Paws-samtökin fagna banninu í Siem Reap og segist dr. Katherine Polak, stjórnandi Suður-Asíudeildar samtakanna, vonast til að önnur héruð fylgi í kjölfarið.

Hafa samtökin greint frá því að allt að 7.000 hundar séu drepnir mánuð hvern í Siem Reap einu til að anna eftirspurn, meðal annars með því að drekkja þeim tugum saman. Samkvæmt tölum Humane Society International eru 30 milljónir hunda drepnar árlega til manneldis í Asíu.

Ljósmynd/Colourbox
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »