Súkkulaðibomba Evu Laufeyjar

Ljósmynd/Eva Laufey

Hér gefur að líta súkkulaðiköku sem er svo girnileg að það er leitun að öðru eins. Við erum að tala um hnausþykkt súkkulaðikrem eins og það gerist best.

Það er engin önnur en Eva Laufey sem á þessa uppskrift sem er svo girnileg að það hálfa væri nóg.

Ljósmynd/Eva Laufey

Súkkulaðibomba Evu Laufeyjar

Súkkulaðibotnar

1 bolli = 2,5 dl

 • 3 bollar hveiti
 • 2 bollar sykur
 • 4 egg
 • 2 bollar AB mjólk
 • 1 bolli bragðlítil olía
 • 6 msk. kakó
 • 2 tsk. lyftiduft
 • 1 tsk. matarsódi
 • 2 tsk. vanilludropar

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 180°C (blástur).
 2. Blandið öllum hráefnum saman og hrærið í nokkrar mínútur eða þar til deigið er orðið silkimjúkt.
 3. Smyrjið tvö eða þrjú lausbotnaform og skiptið deiginu niður í formin.
 4. Bakið við 180°C í 20 –22 mínútur. Tíminn fer auðvitað eftir ofnum, eins og alltaf. Gott er að athuga baksturinn með því að stinga prjóni í kökuna, prjónninn á að koma hreinn út og þá er kakan klár.
 5. Leyfið botnunum að kólna alveg áður en þið setjið á þá krem.

Klassískt og ómótstæðilegt smjörkrem

 • 500 g smjör
 • 500 g flórsykur
 • 150 g suðusúkkulaði
 • 3 msk. kakó
 • 1 msk. uppáhellt kaffi (má sleppa)
 • 2 tsk. vanilludropar
 • 1 msk. eggjarauða (má sleppa)

Aðferð:

 1. Þeytið saman smjör við stofuhita í 2-3 mínútur. Bætið flórsykrinum saman við og þeytið áfram í 3 mínútur. Munið að skafa meðfram hliðum einu sinni til tvisvar sinnum.
 2. Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði.
 3. Bætið vanilludropum, kakói og bræddu súkkulaði saman við og þeytið áfram í 2 mínútur.
 4. Gott er að setja kaffi en ef þið viljið ekki smá kaffibragð þá sleppið þið því.
 5. Bætið einni eggjarauðu saman við kremið í lokin og þeytið áfram í 2 mínútur.
 6. Smyrjið kremi jafnt á milli botnanna og þekið kökuna svo með þessu gómsæta kremi.
 7. Berið strax fram.
Ljósmynd/Eva Laufey
mbl.is