Þetta geturðu þvegið í þvottavél

Margir halda að þvottavélar séu eingöngu til þess að þvo fatnað og annað þesslegt en það er helber misskilningur. Má því leiða líkur að því að margur hafi erfiðað óþarflega við þrif á hinum ýmsu gripum sem hefði mátt henda í þvottavélina.

En hvaða hluti er verið að tala um? 

Sílikonhanskar. Það kannast flestir við svona gogga og fínheit sem eiga að verja viðkvæmar hendur okkar fyirr of miklum hita. Besta leiðin til að þrífa slíkt er að henda þeim í þvottavélina.

Mjúkdýr. Bangsa og annað slíkt þarf að þrífa reglulega. Snjallasta leiðin er að henda þeim reglulega inn í þvottavélina enda fátt ólystugra heldur en úldinn og útslefaður bangsi sem búið er að draga eftir gólfunum og fer aldrei í bað. Munið bara að við erum að tala um mjúkdýr – EKKI gæludýr.

Lego. Já, heldur betur. Leikföng á borð við Lego elska að fara í þvottavélina. Ekki skal þó fullyrt hér um hvort þvotturinn hafi áhrif á merkingar á köllum og öðru slíku þannig að við ráðleggjum ykkur að þvo einn prufukall til að vera viss.

Skór. Þó ekki hvaða skór sem er heldur strigaskór. Settu þá inn í vél en hafðu handklæði með sem dempa hávaðann sem myndast þegar skórnir kastast til. Má leiða líkur að því að mörg skópör hefðu lifað mun lengur hefðu þau fengið þvott reglulega.

Sturtuhengi. Fita og annað safnast auðveldlega fyrir á sturtuhengjum og því tilvalið að henda þeim í þvottavélina reglulega. Munið bara að hafa ekki kalt vatn á vélinni þar sem plast harðnar í kulda og sprungur geta komið í það.

Bakpokar. Nú eru margir eflaust að kveikja á perunni. Það er nefnilega ótalmargt sem þolir vel þvott í þvottavél. Bakpokar eru gott dæmi um þetta en þeir eiga það til að verða ansi skítugir af mikilli notkun eins og gefur að skilja.

Við mælum jafnframt með því séuð þið á annað borð að hugsa um að endurnýja þvottavélina að velja gerð sem er með stuttu prógrammi. Það heyrir algjörlega sögunni til að þvo þurfi almennan þvott í tvo tíma eða lengur. Skyndiprógramm gerir sama gagn og sparar orku og tíma.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert