Sjáland: Lambasirloin og grillaður lambaframpartur

Ásdís Ásgeirsdóttir

Hver getur staðist góða steik og hvað þá með meðlæti sem þessu? Uppskriftin kemur úr smiðju kokkanna á Sjálandi sem voru svo góðir að deila henni með okkur.

Lambasirloin og grillaður lambaframpartur

Fyrir 4
 • 800 g lambasirloin-steik

Snyrtið lambasirloin og skammtið í hæfilegar steikur. Steikið á fituhliðinni, kryddið með salti og eldið svo í ofni við 150°C þar til kjarnhiti nær 60°C. Hvílið í um 15 mínútur.

 • 400 g lambaframpartur
 • 2 msk. harissa-kryddblanda
 • salt

Kryddið frampartinn með harissa og salti og eldið í ofni yfir nótt við 80°C. Kælið niður og skerið í hæfilega bita, ca. 2 cm x 2 cm.

Rabarbara-BBQ

 • 250 g rabarbari í bitum
 • 50 g tómatmauk
 • 50 g púðursykur
 • 50 g eplaedik
 • 20 g sojasósa
 • 5 g fiskisósa

Blandið öllu saman í pott og sjóðið við vægan hita í um klukkustund. Maukið í blandara.

Súrsætir laukar

 • 2 salatlaukar
 • 100 g eplaedik
 • 100 g púðursykur
 • 50 g sojasósa

Skerið salatlaukana í báta og ristið í ofni við 200°C í 30 mínútur eða þar til þeir fara að dökkna. Sjóðið saman eplaedik, púðursykur og soja og hellið yfir laukana. Látið standa í kæli yfir nótt sé þess kostur, eða alla vega í eina klukkustund.

Brokkolíni

 • 12 stilkar brokkolíni
 • eplaedik
 • salt
 • ólífuolía

Blandið öllu saman og bakið í ofni við 200°C í um 8 mínútur eða þar til grænmetið fær smá lit.

Setjið lambaframpartinn í rabarbara-BBQ sósuna og leyfið að malla í nokkrar mínútur. Færið réttinn upp á fallegan disk.

Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is