Hvernig á að sjóða hina fullkomnu kartöflu

Lungamjúk og mátulega soðin "al dente" kartafla leikur við bragðlaukana og framkallar unaðslegar bragðkenndir... jæja þetta er víst of langt gengið en öll þekkjum við kartöflur og elskum mis mikið. Undirrituð fyllir þann flokk sem seint gæti lifað án þeirra og veit fátt betra en rétt soðin eða bökuð kartafla sem er löðrandi af smjöri og passlega söltuð með vönduðu sjávarsalti.

En hvert er leyndarmálið á bak við vel heppaða kartöflusuðu?

Haldið ykkur... því nú verða sjálfsagt margir hissa. Leyndardómurinn á bak við hina fullkomnu kartöflusuðu er edik!

Settu nokkra dropa af ediki út í vatnið. Edikið húðar kartöflurnar sem kemur í veg fyrir að þær molni en þetta er aðferð sem kokkar elska og sjálf Julia Child hældi óspart.

Eins er talað um að setja fyrst kalt vatn í pottinn sem síðan er soðið upp. Ekki láta kartöflurnar bullsjóða lengi og passaðu þig að sjóða þær alls ekki of lengi. Fylgstu vel og reglulega með þeim. Ef þær fara að molna ertu að ofsjóða þær og það viltu alls ekki.

Það er því ljóst að edik er mögulega eitt merkilegasta hráefni í kartöflusuðu og í eldhúsverkum almennt því eins og flestir vita er fátt sem þrífur jafn vel og edik.

mbl.is