Hversu heitt á vatnið að vera til að kaffið heppnist sem best?

Oft­ar en ekki er talað um hversu mikilvægt það sé að hitastig vatnsins sé rétt þegar hellt er upp á kaffi. En hvert er rétt hitastig og af hverju skiptir það máli? Til að út­skýra hvað átt er við feng­um við Aðal­heiði Héðins­dótt­ur, stofn­anda Kaffitárs, sem al­mennt er tal­in manna fróðust um kaffi til að svara þess­ari spurn­ingu.

„Til að ná fram, og í raun leysa upp það í kaffinu sem við viljum, þá þarf vatnið að vera við ákveðið hitastig. Hitastig er mikilvægt til að ná fram bestu bragðeiginleikum kaffisins sem þú notar og hvað varðar uppáhellingaraðferð. Þegar vatnið kemst í snertingu við kaffið er gott að það sé á bilinu 92-94°C. Þetta er vegna þess að til að leysa upp kaffið og sykrurnar í kaffibauninni þarf það að hafa náð ákveðnu hitastigi. Ef vatnið er of heitt þá brennur kaffið sem gefur okkur ramman og of trekktan bolla. Ef það er ekki nógu heitt verður það undirtrekkt, en einnig biturt og í senn súrt og vatnskennt. Því er best, eftir að vatnið kemur af suðu, að leyfa því að kólna í mínútu eða tvær. Ef þið eruð í vafa getið þið alltaf gripið til hitamælis,“ segir Aðalheiður og þar með vitum við það.

mbl.is