Sykurlaus jólamáltíð að hætti Óskars Finnssonar

Kristinn Magnússon

Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni og það eru orð að sönnu í Finnsson-fjölskyldunni, eins og hún er oft kölluð, með sjálfan Óskar Finnsson, meistarakokk og veitingamann, í broddi fylkingar.

Veitingarekstur hefur verið hluti af fjölskyldulífinu alla tíð og hafa bæði börnin, Klara og Finnur, fetað í fótspor foreldra sinna. Fjölskyldan er einstaklega samrýnd og veit fátt skemmtilegra en að elda saman góða máltíð og njóta. Hér reiðir Óskar fram máltíð sem er sykurlaus og hentar því þeim sem eru á sykurlausu mataræði.

Kristinn Magnússon
Kristinn Magnússon
Stökk jólaönd með sellerírótarmús, trönufíkju-chutney, heimagerðu rauðkáli og Waldorf-salati
  • 4 stk. andabringur
  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Andabringurnar þurfa að vera í stofuhita í u.þ.b. 5 klukkustundir.
  2. Takið örlítið af fitunni af köntunum.
  3. Kryddið með salti og pipar áður en þær eru settar á kalda pönnuna. Athugið að fituhliðin snýr niður, sett á kalda pönnu og svo kveikt undir á meðalhita.
  4. Steikt í 4-5 mínútur á fitunni eða þangað til fitan er orðin vel stökk, síðan snúið við og steikt örlítið. Bringan er steikt 80 til 90% af tímanum á fituhliðinni.
  5. Sett í ofn í 6-8 mínútur (eftir þykkt) á 200°C, fitan snýr niður.
  6. Teknar úr ofni, settar á disk og látnar jafna sig í góðar 5 mínútur.
  7. Skornar í rúmlega ½ cm þykkar sneiðar.
Kristinn Magnússon

Sellerírótarstappa

  • 1 stk. lítil sellerírót (1 kg +)
  • 1 peli til ½ l rjómi
  • 2 tsk. dijonsinnep
  • 2-3 tsk. andarkraftur
  • vatn
  • mulinn svartur pipar

Aðferð:

  1. Sellerírótin er snyrt og skorin í teninga, sett í pott m/vatni og helmingnum af rjóma, andarkrafti og pipar og soðið í um 45 mínútur við vægan hita.
  2. Síðan stappað þannig að þetta verði eins og gamaldags kartöflumús.
  3. Meðan á suðunni stendur er afganginum af rjómanum bætt við.
  4. Salt og pipar eftir smekk. Sellerírótarstappan kemur í staðinn fyrir kartöflur með öndinni.
Kristinn Magnússon

Klassíkt Waldorfsalat

  • 2 græn epli
  • 2 perur
  • 20 stk. af steinlausum grænum vínberjum
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 1 peli þeyttur rjómi
  • ½ bolli valhnetur

Aðferð:

  1. Flysjið eplin og takið kjarnann úr og skerið í litla bita. Eins með perurnar.
  2. Skerið vínberin til helminga.
  3. Öllu blandað saman í skál nema valhnetunum.
  4. Ef ykkur finnst þetta súrt þá er hægt að bæta við 1 tsk. af hunangi út í.
  5. Hrært varlega.
  6. Síðan er gott að léttrista valhneturnar á pönnu með GG-gervisykri og smjörklípu, sykurinn settur á pönnu og þegar hann er að byrja bráðna er smjörinu bætt út í og síðan hnetunum velt upp úr í 1-2 mínútur, teknar af pönnunni með gaffli.
  7. Látnar kólna og settar ofan á til skrauts. Hægt er að gera þetta daginn áður.
Kristinn Magnússon

Trönufíkju-chutney

  • 1 poki (um 330 g) af ferskum trönuberjum
  • 1½ bolli gervisykur (Sweet like sugar frá GG)
  • 1 stk. appelsína
  • 1 bolli saxaðar þurrar fíkjur
  • ½ rauðlaukur
  • 1½ msk. ferskur engifer
  • 1 tsk. kanill
  • ½ tsk. salt
  • ½ bolli fersk bláber

Aðferð:

  1. Appelsína er flysjuð og skorin í litla bita.
  2. Engiferinn flysjaður og rifinn niður.
  3. Rauðlaukurinn saxaður smátt.
  4. Allt innihaldið nema bláberin sett í pott, hrært og látið sjóða við vægan hita í 8-10 mínútur.
  5. Hrærið í annað slagið meðan verið er að sjóða.
  6. Eftir u.þ.b. 8 mínútur er þetta eins og gróf sulta, þá er það tekið af og kælt í u.þ.b. hálftíma og bláberjunum blandað saman við þannig að þau séu heil með.
Kristinn Magnússon

Heimagert rauðkál

  • 1 meðalstór rauðkálshaus
  • 2 græn epli
  • 1 klementína
  • 1/4 bolli eplaedik
  • ½ bolli gervisykur (frá GG)
  • ½ l sykurskertur epladjús
  • 1 tsk. kanilduft
  • 2 stk. stjörnuanís
  • 50 g smjör

Aðferð:

  1. Miðjan tekin úr rauðkálshausnum og hann skorinn í bita.
  2. Epli flysjuð og miðjan tekin úr og skorin í teninga.
  3. Allt sett í pott nema klementínan.
  4. Soðið við vægan hita í 1½-2 klukkutíma og hrært inn á milli.
  5. Smakkað eftir klukkutíma og ef ekki nógu sætt þá að bæta aðeins gervisætu eða ef það er of sætt þá bæta við smá eplaediki.
  6. Síðan er þetta kælt og klementínubátunum bætt varlega við.
  7. Þetta rauðkál hentar með öllum mat nema kannski hefðbundnu hangikjöti.

Uppskriftin kemur úr Hátíðarmatarblaðinu okkar sem unnið var í samstarfi við Hagkaup og hægt er að nálgast HÉR.

Kristinn Magnússon
Kristinn Magnússon
Matur - Jólablaðið
Matur - Jólablaðið Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert