Helstu þrifráðin eftir jólin

Þegar jólapartíinu lýkur, þá þarf að rífa upp tuskuna og …
Þegar jólapartíinu lýkur, þá þarf að rífa upp tuskuna og byrja að þrífa. mbl.is/

Jólahátíðin er án efa sú indælasta á árinu – en henni getur líka fylgt alls kyns óþrifnaður sem við neyðumst til að takast á við. Við bjóðum ykkur upp á kærkomin húsráð sem margir ættu að geta nýtt sér eftir jólin.

Svona nærðu barrnálum upp úr teppinu

Hér er notast við teppasjampó eða einn vinsælasta aukahlut ársins – spritt! Settu sjampóið eða hreinsiefnið á svæðið þar sem nálarnar sitja sem fastast og láttu liggja á yfir nótt. Þannig losnar um límið eða kvoðuna sem nálarnar bera oft með sér. Næsta dag áttu að geta burstað barrið upp á auðveldan hátt. Ef einhverjar nálar sitja eftir er ráð að nota breitt límband til að taka restina.

Glimmer á gólfum

Á jólunum er eins og það hafi rignt glimmeri inni í stofu. Glimmer sest auðveldlega í mottur á heimilinu og besta leiðin til að losna við það er að nota mjóa stútinn sem fylgir ryksugunni, því ef þú notast við stóra hausinn er mjög líklegt að glimmerið sitji fast og þú komir til með að dreifa því enn meira um íbúðina þegar þú ryksugar.

Sósublettir

Það kemur fyrir að sósa hellist niður á mottur og teppi. Þá er besta ráðið að skafa sósuna varlega af teppinu. Notið því næst teppahreinsi samkvæmt leiðbeiningum.

mbl.is