Svona skaltu skipuleggja heimilisþrifin á nýju ári

Í janúar er rétti tíminn til að gera þrif-plan fyrir …
Í janúar er rétti tíminn til að gera þrif-plan fyrir árið og standa við það. mbl.is/Getty

Núna er tíminn til að skipuleggja sig að svo mörgu leyti. Þrif- og þvottaspekúlantinn Dr. Beckmann deilir hér tólf mánaða þrifaplani til að auðvelda þér að halda heimilinu hreinu út árið. Og það byrjar núna!

Janúar

Að mati Dr. Beckmanns er janúar mánuðurinn til að taka af skarið. Þetta er tíminn þegar þú þarft að halda haus og er góður fyrir huga og hamingju. Notaðu mánuðinn til að koma þrifáaætluninni þinni í lag. Taktu niður skrautið og gefðu jólagjafirnar sem gagnast þér ekki áfram til góðgerðarmála. Búðu til tékklista yfir það sem þarf að gera.

Febrúar

Baðherbergið er eitt „erfiðasta“ rýmið til að þrífa á heimilinu – svo það er skynsamlegt að stroka það sem fyrst út af listanum. Þú þarft að sjálfsögðu að þrífa baðherbergið reglulega en við erum hér að vitna í stærri aðgerðir. Notaðu febrúar til að þrífa kalkið í sturtunni burt, frárennslið, viftuna og fúguna í flísunum. Þú munt klappa sjálfum þér á bakið eftir verkið.

Mars

Skápar og skúffur eru rými til að fela fjölda synda. Hvort sem það er í eldhúsinu eða í svefnherberginu hafa skáparnir tilhneigingu til að fyllast af dóti sem við þurfum ekki á að halda. Notaðu þennan mánuð til að hreinsa til í skápunum – taktu allt út, flokkaðu, hentu og þrífðu hillurnar áður en þú raðar inn í þá á ný.

Apríl

Þessi mánuður er fullkominn til að kanna vanrækt svæði eins og gardínur, lampaskerma, myndaramma og annað slíkt þar sem ryk safnast fyrir. Við viljum ekki búa með rykmaurum og óþarfa bakteríum ef við komumst hjá því.

Maí

Með bjartari morgnum og léttari kvöldum er maí frábær tími til að þrífa gluggana. Þú munt finna mun þegar sólin byrjar að skína inn og glitra á nýþvegnu glerinu.

Júní

Í júní er rétt að kíkja undir sófann, eldavélina og ísskápinn. Staðina þar sem ryk og drulla safnast en kústurinn nær ekki til. Júnímánuður er einnig frábær mánuður til að endurraða húsgögnunum á heimilinu og rýma fyrir gönguleiðum út á svalirnar þegar grilltímabilið hefst.

Júlí

Taktu til í bílskúrnum því þetta er árstíminn til að henda dótinu út á gangstétt og taka ærlega til. Margir bílskúrar og geymslur enda sem ruslahrúga fyrir dót sem við notum aldrei.

Ágúst

Taktu það rólega í ágúst og njóttu þess að vera í fríi og eiga langar sumarnætur. Þú gætir gefið krökkunum verkefni – að taka til í herberginu sínu áður en skólinn byrjar. Betra að fara inn í veturinn í góðu vinnuumhverfi við skrifborðið. Fínn tími til að fara í gegnum fataskápinn og taka út gamlar og of litlar spjarir.

September

Þegar allir eru mættir aftur til vinnu og skóla er tími til að taka til eftir sumarið. Nú tökum við aftur djúp þrif á baðherberginu og bætum eldhúsinu við. Og ekki gleyma svölunum/garðinum áður en hann leggst í vetrardvala.

Október

Við förum að halda okkur meira innandyra þegar byrjar að kólna og dimma. Þetta er besti tíminn til að djúphreinsa teppi og sófa. Sérstaklega ef það eru gæludýr á heimilinu.

Nóvember

Ofan á venjulega þrifaáætlun þína er þetta tíminn til að kíkja upp á háaloft eða geymsluna og skipuleggja jólaskrautið fyrir komandi vertíð. Þá verður allt svo miklu auðveldara þegar þú nærð í skrautið og byrjar smátt og smátt að setja það upp.

Desember

Fyrstu dagana í desember skaltu taka ísskápinn í gegn og frystinn. Það jafnast ekkert á við gott pláss í kæli þegar jólamaturinn dettur í hús. Þrífðu líka þvottavélina, uppþvottavélina og ofninn ef þú varst ekki búinn að því fyrr á árinu. Þú vilt ekki setja jólasteikina inn í haugaskítugan ofninn á aðfangadag.

mbl.is