8 ómissandi ráð til að þrífa baðherbergið

Við elskum góð húsráð sem snúa að þrifum.
Við elskum góð húsráð sem snúa að þrifum. mbl.is/

Sápurestar, óhreinindi og jafnvel ryðblettir – við viljum þetta allt burt úr baðherberginu. Og hér eru öll bestu ráðin hvernig þú þrífur baðherbergið frá toppi til táar með hvítu ediki einu saman. Nú er bara að smella sér í hanska og hefjast handa!

Sturtuhausinn

Helltu hvítu ediki í plastpoka og settu yfir sturtuhausinn. Festu pokann með teygju til að halda honum saman og láttu standa yfir nótt.

Sturtuklefar

Hitaðu hvítt edik í potti að suðu og leyfðu svo blöndunni að kólna örlítið. Notaðu því næst blönduna til að þrífa sturtuveggi og gler. Strjúktu yfir veggina á 5-8 mínútna fresti í hálftíma. Bleyttu míkrófíberklút upp úr ediki og stráðu natroni yfir og skrúbbaðu. Skolaðu og þurrkaðu svo yfir tandurhreina sturtuveggina.

Klósettið

Helltu bolla af hvítu ediki í klósettskálina og láttu standa yfir nótt. Stráðu natroni yfir morguninn eftir, skrúbbaðu og sturtaðu niður.

Sturtuglerið

Fylltu spreybrúsa til helminga með vatni og hvítu ediki. Spreyjaðu yfir sturtuglerið og notaðu sköfuna síðan á glerið.

Losa  um niðurfallið

Hellið sjóðandi heitu vatni í niðurfallið. Setjið því næst 125 g af natroni í niðurfallið ásamt einum hluta af vatni og öðrum af hvítu ediki. Bíðið í 5-10 mínútur og hellið þá aftur sjóðandi heitu vatni í niðurfallið.

Flísarnar

Blandið ½ bolla af hvítu ediki með 1 lítra af heitu vatni. Notið grófan klút og nuddið flísarnar – skolið og látið þorna.

Sturtuhengi

Hendið sturtuhenginu í þvottavélina ásamt hæfilegu magni af þvottaefni og 115 g af natroni. Þvoið á hæsta hita og bætið 125 g af hvítu ediki í vélina. Hengið upp og látið þorna.

Skítugar fúgur

Spreyið hvítu ediki á fúgurnar og látið standa í 15 mínútur. Notið gamlan tannbursta til að skrúbba og skolið.

mbl.is