Spargelzeit er kominn á Kröst

Spargelzeit er kominn á matseðill veitingastaðarins Kröst á Hlemmi Mathöll. Rétturinn, eins og nafnið gefur til kynna, kemur frá Þýskalandi og er aðalhráefnið í honum hvítur aspas sem vex aðeins í stuttan tíma á vorin og verður því aðeins í boði á Kröst í takmarkaðan tíma.

„Þetta er vorboði hins þýskumælandi heims rétt eins og lóan okkar. Því er mikil ánægja að geta boðið upp á þetta hnossgæti. Ólíkt aspasinum sem við þekkjum hér heima er Spargelzeit hvítur á litinn. Á sama tíma vex sá hvíti neðanjarðar meðan tegundin sem við þekkjum hvað best vex ofanjarðar. Uppskeran hefst í apríl en endar formlega hinn 24. júní, á Jónsmessunni. Nafnið sjálft þýðir í raun tímabilið sem aspasinn vex frekar en tegundin sjálf,“ segir Böðvar Darri Lemacks yfirkokkur og framkvæmdastjóri Kröst.

Spargelzeit á sér langa sögu á meginlandi Evrópu og hefur gengið undir nafninu „hvítagull“ og „konungur grænmetisins“ svo fá dæmi séu tekin. Sagan segir að Rómverjar hafi fyrst sáð aspasinum þar sem Þýskaland er núna fyrir um það bil 2.000 árum. Þó fer ekki að bera á rituðum heimildum um aspas fyrr en fyrir um það bil 300 árum þegar hann var gróðursettur í kirkjum og munkaklaustrum en aspasinn var þekktur fyrir lækningamátt sinn. Þótt saga Spargelzeit sé ráðgáta er hann samt alltaf jafn vinsæll á borðum Þjóðverja.

„Spargelzeit verður bara vinsælli og vinsælli með hverju árinu. Í fyrra seldist hann upp og því pöntuðum við stærri skammt í ár, rétt yfir 200 kg. Sagan segir að það sé erfitt að para Spargelzeit með góðu víni en við höfum ekki orðið vör við það. Okkur þykir þurr Riesling fara einkar vel með en einnig parast góður bjór með réttinum vel. Við hvetjum því alla til að mæta á og bragða á þessum frábæra rétti en einnig er auðvitað hægt að taka hann með sér,“ segir Böðvar.

Spargelzeit er borið fram með hollandaisesósu og reyktri bleikju ásamt kryddjurtum og sítrónusafa. Ekki má heldur gleyma smjörinu sem gefur aspasinum fallega og gómsæta áferð. Þetta er í fjórða sinn sem Kröst býður upp á Spargelzeit og er orðinn að vorboða ýmissa sem leggja leið sína á Hlemm Mathöll.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert