Hindberjapæ sem smellpassar við öll tilefni

Ljósmynd/Guðrún Ýr

Það er Guðrún Ýr á Döðlum & smjöri sem á þessa snilldaruppskrift sem er eiginlega nauðsynlegt að prófa enda segir Guðrún hana í miklu uppáhaldi.

„Í allri hreinskilni þá er þetta sú kaka sem ég hef eflaust sjaldnast bakað sjálf heldur bið að hún sé bökuð fyrir hin og þessi tilefni. En þar á mamma mín heiðurinn, þessi kaka er í miklu uppáhaldi hjá mér og ef ég er að halda afmæli eða veislu þá bið ég hana oftast að gera þessa sem sitt framlag í veisluna. Hún býðst vissulega til að hjálpa.

Ég hef bakað hana sjálf nokkrum sinnum en stundum er líka gott að eiga svona köku sem aðrir gera svo vel að maður hlakkar til að fá hana annars staðar en heima hjá sér, einhver að tengja? Kannski bara ég!

Hún er alveg dásamleg þegar hún er volg með rjóma en svo er hún einnig ótrúlega góð beint úr kæli eða jafnvel frystinum, því það er mjög gott að eiga hana í frysti. En þið sem hafið lesið inngangana mína að uppskriftum komist víst að því að mér þykir það mikill kostur ef hægt er að frysta kökur, til að dreifa álagi eða bara þegar kakan klárast ekki og gaman er að bera hann fram síðar við önnur tækifæri.“

Hindberjapæ

Botn

  • 200 g smjör
  • 200 púðursykur
  • 200 hveiti
  • 230 g haframjöl
  • 1 tsk. matarsódi

Stillið ofn á 180°C. Þeytið smjör og sykur saman í 1-2 mín, vigtið þurrefnin saman við og þeytið vel saman. Undirbúið bökuform með því að spreyja það að innan með PAM-spreyi en einnig er hægt að nota eldfast mót ef bökuform er ekki við höndina. Takið tvo þriðju hluta af deiginu og pressið það niður í formið með höndunum.

Bakið botninn í 10 mín. og útbúið fyllinguna á meðan.

Fylling

  • 200 g sykur
  • 30 g hveiti
  • 1 dós sýrður rjómi 18%
  • 1 tsk. möndludropar
  • 1 egg
  • 200 g hindber

Blandið öllu fyrir utan berin saman í skál og hrærið þangað til að það er orðið að góðri blöndu.

Takið botninn úr ofninum, hellið fyllingunni yfir hann og raðið berjunum yfir. Takið þá næst restina af deiginu og klípið í litlar einingar og leggið yfir fyllinguna. Síðan er bakan sett aftur inn í ofn og bökuð í 25 mín.

Leyfið bökunni að kólna í 30-60 mín. áður en hún er borin fram eða þannig finnst mér hún best; enn smá volg en ekki of heit.

Ljósmynd/Guðrún Ýr
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert