Líf færist í veitingabransann

AFP

Miklar hræringar eru nú á veitingamarkaði í miðborg Reykjavíkur. Eftir erfiða tíma síðasta árið og rúmlega það sjá nú margir tækifæri vera að opnast á ný. Útlit er fyrir að samkomutakmarkanir verði rýmkaðar hratt á næstunni og ferðamenn eru farnir að streyma til landsins.

„Núna eru líka loksins farnir að sjást leigusamningar sem eru hugsanlega í lagi. Hér hefur leiguverð verið allt uppskrúfað enda standa víða rými auð eða þar er rekstur sem er ekki að ganga,“ segir Jón Mýrdal Harðarson veitingamaður.

Jón er einn þeirra sem sér tækifæri í ástandinu og hyggst opna nýjan stað í byrjun júní. Sá hefur fengið nafnið Skuggabaldur og verður kaffihús á daginn en djassbúlla á kvöldin. Skuggabaldur verður við Austurvöll, í húsnæði þar sem Kaffibrennslan var lengi rekin. Tónlistarmaðurinn Snorri Helgason verður Jóni til halds og trausts í rekstrinum og sér um að bóka tónleika á Skuggabaldri.

Búast má við því að aukið líf færist í stemninguna á Austurvelli í sumar. Auk djassbúllunnar nýju stendur til að endurvekja veitinga- og skemmtistaðinn á Hótel Borg og verður sjálfur Helgi Björns í brúnni þar. Þá má búast við því að líflegt verði utandyra við Austurvöll enda verður útisvæði við nokkra veitingastaði stækkað eftir að frægur grjótveggur var tekinn niður.

Skandinavísk stemning

Nýr bar verður opnaður á Skólavörðustíg í byrjun júlímánaðar. „Þetta verður krúttlegur skandinavískur staður,“ segir Magnús Már Kristinsson veitingamaður sem opnar staðinn ásamt félaga sínum, Vilhjálmi Kristjánssyni.

Nýi staðurinn hefur ekki enn fengið nafn en hann verður á Skólavörðustíg 8 þar sem Reykjavík Sportbar var áður til húsa. Sá hefur verið fluttur á Hverfisgötu.

„Við verðum auðvitað með góðan bjór en ætlum nú að fara meira út í kokteila. Við erum flinkir í að setja vökva á kúta og munum einbeita okkur að kokteilum á krana. Þetta verður svolítið öðruvísi en verið hefur annars staðar því við munum nota nítró-gas til að dæla þeim. Það mun koma kokteilbarþjónum á óvart að það þarf ekki að hrista drykkina. Einn vinsælasti drykkur borgarinnar, Espresso Martini, kemur til dæmis beint af dælu í glasið með froðu,“ segir Magnús. Hann segir að nýi barinn verði samkomustaður fyrir fullorðið fólk. Þar verði falleg skandinavísk húsgögn og listaverk á veggjum. „Þetta verður ekki skemmtistaður, þarna getur fólk komið og hitt vini sína og félaga. Við ættum að geta opnað fyrstu helgina í júlí, í seinasta lagi.“

Fleiri nýir staðir verða opnaðir á sama svæði í sumar. Birgitta Líf Björnsdóttir hefur tekið við húsnæðinu þar sem b5 var rekinn í Bankastræti um árabil og hyggur á opnun skemmtistaðar. Við Laugaveg 12, þar sem Le Bistro var áður, undirbúa þeir Arnór Bohic og barþjónninn Orri Páll Vilhjálmsson opnun veitingastaðarins Botanica þar sem suðuramerískir straumar verða áberandi í mat og drykk.

Perú mætir Japan í Hjartagarði

Skammt undan er húsnæði gamla Skelfiskmarkaðarins. Þar verður veitingastaðurinn Monkeys Reykjavík opnaður í lok júní og lítill kokteilbar við hlið hans. „Nýr húseigandi hafði samband við okkur og við vildum auðvitað passa að það kæmust ekki aðrir rebbar inn í hænsnakofann. Stundum er sókn besta vörnin,“ segir Arnar Þór Gíslason, einn aðstandenda.

Á Monkeys Reykjavík verður japönskum matreiðsluhefðum blandað við matarhefðir frá Perú og reiddir fram spennandi smáréttir. „Við erum með hörkugaura í hverri stöðu og spennandi matseðil. Svo verðum við með útiborð í Hjartagarðinum og spennandi kokteilbar í gamla Sirkushúsinu,“ segir Arnar.

Bjórinn flæðir á Snorrabraut

Þar með er ekki allt talið því eins og kom fram í Morgunblaðinu í byrjun vikunnar hyggja Ólafur Örn Ólafsson veitingamaður og félagar hans á Vínstúkunni Tíu sopum á opnun þriggja nýrra staða í sumar; Ó-le í Hafnarstræti, Brút í Pósthússtræti og Bruggstofunnar við Snorrabraut en sá síðastnefndi verður í samstarfi við RVK Brewing.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert