Svona losar þú naglalakk úr fötum

Það má vera með skvísulæti, en það er verra þegar …
Það má vera með skvísulæti, en það er verra þegar naglalakkið fer sínar eigin leiðir og klessist í fötin. mbl.is/Getty Images

Það er afar hvimleitt að fá naglalakk í fötin sín og hefur komið (oft) fyrir á bestu bæjum. En það þarf alls ekki að vera úti um flíkina ef þú reynir þessar aðferðir sem við kynnum hér.

Fyrsta sem þú þarft að muna þegar þú kastar þér út í þrifin er að hver og ein flík er sérstök – þú hreinsar til dæmis ekki bómullarpeysu á sama máta og silki eða ull. Það er alltaf þess virði að reyna losa sig við lakkið, en farðu með flíkina til fagaðila ef hún hefur kostað sitt eða hefur tilfinningalegt gildi.

Frystimeðferðin

Þú hefur væntanlega heyrt talað um að best sé að frysta flík með fastri tyggjóklessu, með því að setja flíkina inn í frysti – og við förum sömu leið hérna. Með því að setja í frysti flík sem hefur fengið skvettu af naglalakki, þá spornar þú við því að lakkið festi sig frekar í efninu. Reynið að skrapa eins mikið af lakkinu af og hægt er og setjið í frysti eða ofan á íspoka, til að lakkið harðni sem fyrst. Þannig ætti það að losna af í einum „bita“.

Hreinsimeðferðin

Ef það virkar ekki að frysta flíkina þarf að grípa til frekari aðgerða. Bleytið klút með naglalakkshreinsi og þurrkið blettinn án þess að nudda of mikið. Notið helst asetónfrían hreinsi til að koma í veg fyrir skemmdir á efninu. Vertu samt meðvituð um að litir gætu fölnað. Þegar þú hefur náð því mesta í burtu er ekki úr vegi að prófa blettahreinsi eins og Vanish eða Dr. Beckmann og skella flíkinni í þvottavél samkvæmt leiðbeiningum.

mbl.is