Bjóða upp á bjór og BBQ í bænum

Eigendur RVK, þeir Valgeir Valgeirsson, Sigurður Pétur Snorrason og Einar …
Eigendur RVK, þeir Valgeir Valgeirsson, Sigurður Pétur Snorrason og Einar Örn Sigurdórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum ekki að finna upp hjólið því þetta hefur tíðkast á mörgum stöðum úti. Við teljum okkur hins vegar vera með góða blöndu og verðum þeir fyrstu sem taka þetta alla leið á Íslandi,“ segir Sigurður Pétur Snorrason, einn eigenda RVK bruggfélags.

Sigurður og félagar hans opna á næstu dögum nýja bruggstofu að Snorrabraut 56. Þar var áður veitingastaðurinn Roadhouse og enn fyrr sjoppan Ríkið. Hún fékk nafn sitt af útibúi ÁTVR sem var norðanmegin í sama húsi á árum áður. Nýi staðurinn kallast Bruggstofan og þar verður hægt að fá mikið úrval af handverksbjór úr smiðju RVK bruggfélags auk BBQ-matar að amerískum sið. Maturinn er framreiddur í samstarfi við kunna veitingamenn sem reka Vínstúkuna 10 sopa og fleiri veitingastaði í miðborginni.

Kokkarnir eru tilbúnir í slaginn í eldhúsinu á Bruggstofunni.
Kokkarnir eru tilbúnir í slaginn í eldhúsinu á Bruggstofunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrjú ár eru síðan RVK var sett á stofn. Fyrsti bjór bruggfélagsins var kynntur til leiks 18. júní 2018, daginn sem Ísland mætti Argentínu á HM í Rússlandi. Skemmst er frá að segja að fáir mættu í opnunarpartíið. Óhætt er að segja að allt hafi legið upp á við síðan þá og ætlunin er að stíga stór skref á næstu mánuðum.

Verða með tvo reykofna

„Nú ætlum við að hrista upp í leiknum,“ segir Sigurður í samtali við Morgunblaðið. „Við höfum frá upphafi rekið litla bruggstofu samhliða brugghúsinu okkar. Það er skemmtilegt, lítið afdrep með pláss fyrir 30 gesti en við höfum lengi haft áhuga á því að stækka aðeins við okkur. Við höfum skoðað eitt og annað með strákunum í Vínstúkunni 10 sopum og duttum niður á þetta húsnæði á Snorrabraut í janúar.“

Á nýju Bruggstofunni er nóg pláss og munu Sigurður og félagar geta boðið upp á 17 bjóra á krana. Fyrst um sinn verða eingöngu í boði bjórar frá RVK en í framtíðinni verða mögulega teknir inn bjórar frá öðrum handverksbrugghúsum.

„Svo bætist við ekta amerískur BBQ-matur. Við verðum með tvo reykofna og munum bjóða upp á svínarif, brisket, reyktar pylsur og kjúkling auk grænmetis- og veganrétta og úrvals af meðlæti,“ segir Sigurður.

Þurfa að stækka brugghúsið

Hann segir aðspurður að góður bjór og amerískur BBQ-matur sé góð blanda. „Það myndi ég hiklaust segja. Við finnum það hjá fólki sem kemur til okkar að það vill einhvern mat með bjórnum. Við höfum einu sinni á ári skellt upp útigrilli og boðið gestum upp á grillmat á afmæli RVK og það hefur verið mjög vinsælt. Við teljum að það sé mikill áhugi fyrir svona mat.“

Aðstandendur RVK Brewing og Vínstúkunnar tíu sopa fyrir framan húsnæðið …
Aðstandendur RVK Brewing og Vínstúkunnar tíu sopa fyrir framan húsnæðið á Snorrabraut.

Starfsemi RVK bruggfélags hefur tekið breytingum síðustu misseri vegna kórónuveirufaraldursins. Í upphafi var lögð áhersla á sölu bjórs í bruggstofunni auk þess sem bjórar félagsins voru seldir á kútum á aðra bari og veitingastaði. Margir þeirra þurftu hins vegar að hafa lokað vegna samkomubanns á síðasta ári og því fóru RVK-menn að leita nýrra leiða. Líkt og fleiri brugghús hófu þeir sölu á bjór sínum í flöskum og dósum í verslunum ÁTVR. Sú stefnubreyting hefur skilað sínu að sögn Sigurðar. „Í Covid jukum við söluna um 20% í krónum talið. Fram eftir þessu ári var áframhaldandi aukning miðað við sama tíma í fyrra.“

Þessi aukna sala og fyrirhuguð aukning er fylgja mun nýju Bruggstofunni þýðir það að brugghús RVK annar ekki lengur eftirspurn. Sigurður segir að nýtt brugghús verði opnað innan tíðar í næsta húsi við höfuðstöðvar RVK í Skipholti. Brugghúsið er í leyfismeðferð en með tilkomu þess mun RVK geta aukið framleiðslugetu sína til mikilla muna.

„Það verður búið fullkomnum tækjum sem tryggja gæði og stöðugleika í okkar framleiðslu. Í nýja brugghúsinu framleiðum við fyrir neytendaumbúðir og þá bjóra sem framleiddir verða í meira magni. Gamla brugghúsið verður áfram notað til að framleiða sérhæfðari bjóra og litla bruggstofan verður áfram opin en með öðrum áherslum. Þar getum við boðið upp á fágætari og sérhæfðari bjóra.“

Bjórhlaup og tunnubjórahátíð

RVK bruggfélag stendur fyrir bjórhlaupi hinn 4. september næstkomandi. Ræst verður frá Bruggstofunni við Snorrabraut. Um 600 manns tóku þátt í bjórhlaupi RVK árið 2019 en því var aflýst í fyrra vegna samkomutakmarkana. Þetta verður ekki eini viðburður RVK í haust því fyrirhugað er að halda svokallað tunnubjórafestival. Til stóð að halda það í febrúar í fyrra en því var frestað vegna kórónuveirunnar. Öllum íslenskum brugghúsum verður boðið að taka þátt en aðeins verður boðið upp á bjóra sem hafa fengið að þroskast á tunnum í nokkra mánuði eða jafnvel nokkur ár.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »