Samlokan sem Ameríka elskar

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Svokallaðar morgunverðarsamlokur eru ægivinsælar í Bandaríkjunum og reyndar víða um heim. Hér galdrar Berglind Hreiðars á Gotteri.is fram eina frægustu morgunverðarsamloku allra tíma með frábærum árangri.

„„One Bacon Breakfast Sandwich and Caramel Frappuccino please.“ Þetta er setning sem ég hef sagt ansi oft á veitingahúsum Starbucks í gegnum tíðina. Þegar við vorum í London um daginn bað ég um þetta en samlokan var alls ekki eins og í BNA og hreint ekki eins góð og þar. Þetta er í raun ekki flókið; brauð, egg, beikon og ostur, engin sósa og ekkert vesen en samt svo dásamlega gott!

Þegar ég sá súrdeigsbollurnar frá Hatting skaut þeirri hugmynd upp í kollinn á mér að reyna að herma eftir samlokunni góðu. Ég gúglaði alls konar „copycat“-Starbucks-uppskriftir og úr varð að ég prófaði þessa samsetningu hér sem var hreint út sagt fullkomin! Ef ég vissi ekki betur þá er Starbucks í BNA að nota þessi Hatting-brauð, ég get svo svarið það!“

Starbucks Bacon Breakfast Sandwich

Bacon Breakfast Sandwich

8 stykki

  • 8 x Hatting-súrdeigsbollur
  • 8 egg
  • 2 msk. rifinn parmesanostur
  • 4 msk. mjólk
  • 1 tsk. salt
  • ¼ tsk. pipar
  • 16 sneiðar beikon
  • 8 goudaostssneiðar
  • matarolíusprey

Aðferð:

  1. Affrystið bollurnar og skerið þær í sundur.
  2. Steikið beikonið þar til það er stökkt (í ofni eða á pönnu og þerrið fituna af), geymið.
  3. Hitið ofninn í 170°C.
  4. Pískið saman egg, parmesanost, mjólk, salt og pipar.
  5. Spreyið vel af matarolíuspreyi í tvö formkökuform/brauðform og skiptið eggjablöndunni jafnt niður í þau.
  6. Setjið í ofninn í um 10 mínútur eða þar til eggin lyfta sér aðeins og eru elduð í gegn. Getið prófað að stinga í þau prjóni til að vera viss.
  7. Takið úr ofninum og skerið eggjakökuna í hvoru formi niður í fjóra hluta.
  8. Raðið síðan saman. Setjið eggjabita ofan á botninn á bollunni, næst ostsneið, beikon og loks toppinn á bolluna. Ef þið viljið eiga samlokurnar í nesti er hægt að plasta þær og frysta á þessum tímapunkti, taka síðan úr frysti og setja í örbylgjuofninn. Ef snæða á samlokurnar strax, fylgið skrefi 9.
  9. Hitið í ofninum í nokkrar mínútur eða þar til osturinn bráðnar og brauðið hitnar.

Caramel Frappuccino

4 lítil glös

  • 2 lúkur klakar
  • 800 g vanilluís
  • 2 msk. sykur
  • 200 ml Starbucks Expresso Roast-kaffi
  • 100 ml mjólk
  • 2 msk. karamellusósa (+ meira til skrauts)
    hægt er að nota þykka íssósu
  • 250 ml þeyttur rjómi
  • hnetukurl

Aðferð:

  1. Setjið allt nema þeytta rjómann og hnetukurl í blandarann og blandið þar til kekkjalaust.
  2. Sprautið smá karamellusósu innan á hliðarnar á glösunum og hellið ísblöndu í hvert glas.
  3. Toppið með þeyttum rjóma, smá meiri karamellusósu og hnetukurli.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert