Stækkaði brugghúsið um 30% vegna vinsælda

Þorsteinn Snævar Benediktsson Húsavík Öl, Halldór Darri Guðjónsson og Árni …
Þorsteinn Snævar Benediktsson Húsavík Öl, Halldór Darri Guðjónsson og Árni Theodór Long Borg brugghús

„Við höfum lengi verið með það í pípunum að auka framleiðslugetuna til að missa ekki af sölu á álagstímum. Við höfum til dæmis lent í því síðustu þrjú sumur að klára allt sem við eigum á bæjarhátíðinni Mærudögum. Þetta var því tímabært,“ segir Þorsteinn Snævar Benediktsson, bruggmeistari og eigandi Húsavík öl.

Vill stækka bruggstofuna

Húsavík öl hefur verið rekið í gömlu mjólkurstöðinni á Húsavík síðan í lok árs 2017. Tæp þrjú ár eru síðan bruggstofa var opnuð í húsnæðinu og hefur hún notið mikilla vinsælda. Svo mikilla reyndar að Þorsteinn sá þann kost vænstan að bæta nýlega við 1.200 lítra gerjunartanki sem eykur framleiðslugetu Húsavík öl um ríflega 30%. „Ég vonast líka til að geta stækkað bruggstofuna og fengið meira pláss. Hvort við gerum það í ár eða á næsta ári á eftir að koma í ljós,“ segir Þorsteinn.

Ekki hrifinn af ÁTVR

Erfitt hefur verið að anna eftirspurn og um tíma fékkst bjór Húsavík öl aðeins fyrir norðan. Nú horfir til betri vegar og sem stendur fæst hann á þremur stöðum í höfuðstaðnum; á Brewdog, Skúla craft bar og Session. Þorsteinn segir þó engin áform um að selja handverksbjór sinn í Vínbúðunum. „Nei, ég er ekkert sérstaklega hrifinn af einokunarverslun ríkisins. Ég bíð bara eftir því að mega selja mínar vörur sjálfur. Vonandi verður það mál keyrt í gegn á þinginu í vetur.“

Fagna októberfest

En hvað sem Þorsteini kann að finnast um ÁTVR er þó ljóst að nú í vikunni gefst áhugasömum færi á að kaupa bjór sem hann tók þátt í að framleiða. Er þar um að ræða samstarfsbrugg Húsavík öl og Borgar brugghúss í tilefni þess að nú er tími októberfests. „Þetta verður þrusu bjór,“ segir Þorsteinn um bjórinn sem kallast því áhugaverða nafni Veður fyrir leður og er lýst sem bragðfjörugum pilsner.

Alltaf veður fyrir leður

Spurður út í nafnið segir bruggmeistarinn að það sé vísun í þýskan frasa sem hentur hafi verið á lofti þegar bjórinn var framleiddur. Hann hafi þótt passa ágætlega inn í umhverfi októberfests þegar hefð er fyrir því að fólk klæðist lederhosen. „Þetta var eitthvað sem kom upp og var fyndið; „Das ist immer Wetter für Leder.“ Það útlagðist vel á íslensku og er bæði fallegt og satt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert